Bálförum fjölgar hratt

23.01.2016 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Bálfarir voru 43 prósent útfara á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Forstjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis segir að þróunin sé hröð og eftir nokkur ár verði annar hver maður brenndur.

Það deyja víst allir einhvern tímann og því fær enginn breytt. Það sem hefur hins vegar tekið örum breytingum síðustu ár er hvernig útfarir fara fram.

„Já það er gríðarlegur vöxtur í bálförum á Íslandi. Ef við tökum dæmi. 1994 var það 10% af heildartölu látinna og 2015 er talan komin í 30 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er hún komin í 43%. Við nálgumst að önnur hver útför er bálför,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis.

Hann telur ýmsar ástæður fyrir þessari þróun, meðal annars áhrif frá Skandinavíu. Þar er hlutfall þeirra sem láta brenna sig eftir andlát miklu hærra. Í Danmörku er hlutfallið á landsvísu 70 prósent og vel yfir 90 prósent í Kaupmannahöfn. Í Þýskalandi og Bretlandi er þetta einnig ríkjandi leið.

„Það eru líka praktísk sjónarmið. Það er sparnaður á landi og ódýrara að grafa altso duftker en kistur og eins eru heilbrigðissjónarmið sem ráða þarna ríkjum.“

Þessi hraða þróun veldur því að hægt hefur á þörfinni fyrir nýju landi undir kirkjugarða. Þórsteinn segir mengun af þessu vera sáralitla. Heimilt er að dreifa ösku látinna utan byggðra svæða, á hálendinu og á hafi úti. Frá 2002 hefur innanríkisráðuneytið gefið leyfi fyrir 115 öskudreifingum.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður