Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bætist í óveðurskýin yfir Íslandi

12.02.2020 - 12:48
Mynd: RÚV / RÚV
„Við höfum talað um það síðustu vikur að það séu óveðurský yfir Íslandi og fréttir af Straumsvík í morgun eru enn ein staðfesting þess. Og þetta eru býsna skýr skilaboð sem þarna koma fram,“ sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í hádegisfréttum RÚV. Tilkynnt var í morgun að Rio Tinto endurskoðar rekstur álversins. Hugsanlega verður dregið úr framleiðslu fyrirtækisins eða því lokað.

„Við höfum haft áhyggjur af þessu í lengri tíma og bent á það að í orkumálum eins og í öðrum málum þurfi að líta til virðiskeðjunnar í heild sinni. Ekki bara til þess að einu fyrirtæki gangi vel heldur til þess að iðnaðurinn sé sjálfbær,“ segir Sigurður. Hann vísar til þess að í tilkynningu frá Rio Tinto kemur fram að verðið sem fyrirtækinu býðst sé ekki samkeppnishæft.

Sigurður bendir á að efnahagsleg áhrif álversins í Straumsvík séu gríðarleg. Fyrirtækið greiði 11 miljarða til samfélagsins í gegnum skatta og kaup á vörum og þjónustu fyrir utan raforkuverð. „Á bakvið það eru mörg störf og mörg fyrirtækinu í nærsamfélaginu byggja og reiða sig á viðskipti við þetta fyrirtæki,“ segir Sigurður Hannesson.