Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bætir í snjó á fjöllum og rýming í stöðugri endurskoðun

17.03.2020 - 17:23
Svona var umhorfs í appelsínugulri viðvörun og hættuástandi vegna snjóflóða á Flateyri í mars 2020
 Mynd: Ívar Kristjánsson - Aðsend
Minnst fjögur snjóflóð hafa fallið utan byggðar síðasta sólarhringinn og viðbúið að fleiri falli. Sveinn Brynjólfsson hjá snjóflóðavakt Veðurstofunnar segir veður virðast ætla að ganga niður á suðurfjörðunum í kvöld en áfram sé útlitið slæmt á norðanverðum Vestfjörðum. Því má búast við að óvissustig verði áfram í gildi þar til á morgun.

„Það er enn norðaustan hríðarveður og fylgst með aðstæðum. Það bætir svolítið á snjó á fjöllum. Það sést á snjóþykktarmælum á Ísafirði til dæmis,“ segir hann.

Krapi sást í sjónum í Súgandafirði sem bendir til þess að flóð hafi fallið í firðinum norðanverðum. Tilmælum hefur verið komið til Suðureyringa um að halda sig fjarri hafnarsvæðinu. Sama gildir á Flateyri þar sem höfnin er óvarin fyrir flóðum. Hús voru rýmd þar og á Patreksfirði í gær og iðnaðarhúsnæði var rýmt á Ísafirði í morgun. Sveinn segist ekki sjá fram á að það þurfi að rýma meira.

„Það er bara í stöðugri endurskoðun. Það er ekkert á döfinni en við fylgjumst vel með.“

Bæði er lokað um Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg vegna snjóflóðahættu. Þá eru nær allar leiðir á Vestfjörðum ófærar vegna veðurs og hafa verið síðan í gær. Veðurviðvaranir eru þar í gildi þangað til í nótt.