Bærinn bað nemendur og foreldra afsökunar

30.11.2019 - 18:09
Merki Seltjarnarness við Sæbraut.
Vinsælt er að ganga og hjóla frá Eiðisgranda til Seltjarnarness. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Óánægja með námsmat í vor varð til þess að bæjarstjórn Seltjarnarness bað tíundu bekkinga og foreldra þeirra afsökunar. Foreldrar töldu börn sín ekki sitja við sama borð og jafnaldrar þeirra annars staðar.

Ósátt við námsmatið

Óánægja vaknaði með einkunnagjöf og námsmat barna sem voru að ljúka tíunda bekk í Grunnskóla Seltjarnarness í vor. Foreldrar kvörtuðu til skólans, bæjaryfirvalda og menntamálaráðuneytisins. Utanaðkomandi skólastjóri var látinn vinna greinargerð um námsmatið fyrir bæinn. Þar kemur fram að að upplýsa þurfi foreldra og nemendur betur um námsmat, og að sumir kennarar hafi viljað miða einkunn við meðaltöl úr verkefnum yfir veturinn en að hæfniseinkunn eigi að endurspegla getu í lok námsáfanga. Þá er bent á að tryggja þurfi stöðugleika, þannig að kennarar í sömu námsgrein noti sömu viðmið. Fræðslustjóra þótti ljóst að ýmsu væri ábótavant.

Foreldrafélagið bókaði óánægju sína á fundi skólanefndar. Þar segir að námsmatið hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu nemenda í vor og nemendum hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta sig. Þá hafi nemendur Grunnskóla Seltjarnarness ekki setið við sama borð og önnur börn á landinu við inntöku í framhaldsskóla.

Afsökunarbeiðni og falleinkunn

Málið var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag. Þar lýsti meirihluti Sjálfstæðisflokksins harmi yfir ágreiningnum um námsmatið. Meirihlutinn bað foreldra og tíundubekkinga afsökunar á tilfinningalegu tjóni og óþægindum sem þetta hefði valdið og þeim afleiðingum sem þetta hefði í för með sér. 

Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista sagði greinargerðina vera falleinkunn fyrir skólann, í henni blasi við að alvarleg brotalöm hafi verið á útskrift nemenda í vor og jafnvel lengra aftur í tímann.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi