Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bændur þurfa að handmjólka kýr í rafmagnsleysinu

11.12.2019 - 14:23
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Margir bæir í Svarfaðardal hafa verið rafmagnslausir síðan um hádegi í gær. Þar eru stór kúabú með 40-60 mjólkandi kýr, svokölluð róbótafjós þar sem allt mjaltakerfi gengur fyrir rafmagni. Hjá Trausta Þórissyni, bónda á Hofsá í Svarfaðardal, er varaafl en hann segir fæsta þannig útbúna.

Hann segir að rafmagnslaust sé víðast hvar í dalnum og að flestir bændur séu úti í fjósum að handmjólka. Trausti segir að bændur á svæðum þar sem línur eru lélegar og þola ekki veður sem þessi hljóti að kalla eftir því að þær verði grafnar í jörð hið snarasta.  Nútímafjós kalli á stöðugt rafmagn.

„Það stoppar allt. Það er lítið hægt að gera annað en að mjólka þær með höndum. Kýrnar eiga erfitt með að vera ómjólkaðar í lengri tíma, sérstaklega þær sem eru háar í nyt. Ef þetta verður ekki mikið meira en sólarhringur þá hefur þetta ekki víðtæk áhrif, en ef rafmagnsleysið dregst á langinn þá fer að minnka í kúnum,“ segir Trausti.

Fjarskipti í lamasessi víða

Hann segir að það sé meira en að segja það að handmjólka úr stórum kúahópum. Bændur reyni að gera allt sem þeir geti til að minnka það tjón sem rafmagnsleysið veldur. Fjarskipti hafa verið í lamasessi á Tröllaskaga og misjafnt eftir fjarskiptafyrirtækjum hvernig fjarskiptasamband hefur verið.

„Hins vegar er ekki farið að kólna að ráði í húsum þar sem dælur hitaveitunnar eru keyrðar á varaafli. Í framanverðum Svarfaðardalnum er hins vegar ekki hitaveita og hús kynnt með rafmagni. Þar er sennilega farið að kólna í húsum þar,“ segir Trausti.