Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bændur hafa miklar áhyggjur af þurrki

09.06.2019 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Sveinsson
Tún eru að skrælna á Barðaströnd á Vestfjörðum og ástandið fer versnandi ef ekki fer að væta, segir Barði Sveinsson bóndi á bænum Innri-Múla. Mikil þurrkatíð hefur verið um landið sunnan- og vestanvert, sem eykur hættu á gróðureldum.

Bændur hafa haft áhyggjur af þessum langvinna þurrki og hafa umræður meðal annars skapast á Facebook-síðu um landbúnaðarmál vegna málsins. Þar segir fólk meðal annars að aldrei nokkurn tímann hafi það óskað eins heitt eftir rigningu fyrir austan eins og núna, eftir margra vikna þurrk. 

Sjálfur segist Barði ekki muna eftir öðru eins, á þessum tíma árs ætti uppskera að vera góð en það sé ekki raunin núna. Hann segir nauðsynlegt að slá sem fyrst á meðan enn séu gæði á grasinu. Einhverjir kúabændur á Barðaströnd séu  byrjaðir að slá því þeir ætli að bjarga því sem bjargað verður. 

Barði segir að útlitið hafi verið bjart í byrjun maí, þá hafi stefnt í fína uppskeru. Síðan hafi ekkert rignt og því sé staðan eins og hún er. Barði vonar að það fari að rigna sem fyrst, grasið sé fljótt að taka við sér þegar jörðin fær raka. Hann ætlar að byrja að slá eftir helgi áður en grasið rýrnar meira.

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV