Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bændur bornir þungum sökum vegna hrossadauða

17.12.2019 - 19:07
Mynd: Fréttir / Fréttir
Óttast er um afdrif yfir hundrað hrossa á Norðvesturlandi eftir veðurhaminn í síðustu viku. Vitað er að hátt í áttatíu hross eru dauð. Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST segir aðstæðurnar fordæmalausar. 

Hátt í 80 hross hafa þegar drepist

Víða um landið drápust hross sem stóðu úti í storminum í síðustu viku en ástandið var hvað verst í Húnavatnssýslum. Þar hafa hátt í áttatíu hross drepist og óttast er um afdrif yfir hundrað. Þá eru þau sem lifðu hremmingarnar af mörg hver örmagna og geta ekki sinnt líkamlegum þörfum sínum. Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi hefur síðustu daga sinnt hátt í fimmtán verkefnum tengdum hrossum sem hröktust undan veðri.   

„Þarna koma dagar þar sem er ekki nokkur lifandi leið að komast að þeim í 2, 3 sólarhringa.  Það sást ekki til hrossa og þá eru þau náttúrulega sama hvað þú geirr matar og vatns-laus þann tíma, “ segir Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST.  

Hún segir þó ekkert benda til þess að bændur hafi ekki gert viðeigandi ráðstafanir.

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir bændur að verða fyrir þessu og ég ítreka það að þetta er alls ekki að gerast því þeir hafi ekki undirbúið þetta. Það er ekkert sem bendir til þess. Það er til dæmis yfirleitt ekki þannig að það hafi drepist mörg hross á stökum bæjum heldur fá hross á mjög mörgum bæjum. Þetta er að koma upp hjá mjög reyndu fólki. Þetta er ekki gegnum gangandi kæruleysi. Þetta eru bara fordæmalausar veðuraðstæður sem að höfðu þetta í för með sér.“
 
Hefð sé fyrir því á Íslandi að halda hross á útigangi og ólíklegt sé að það breytist. Húsakostur sé ekki til og því ekki unnt að koma dýrunum fyrir inni. 

Útlistaðir dýraníðingar á vefmiðlum

Ingunn Reynisdóttir, dýralæknir í Húnavatnssýslu, segir hljóðið í bændum slæmt. Þeir hafi verið bornir þungum sökum síðustu daga. 

„Þeir eru bæði orðnir uppgefnir líkamlega og andlega. Þeir eru bara ofboðslega þreyttir og svo eru þeir útlistaðir dýraníðingar á öllum vefmiðlum sem er ekki til að hjálpa. Allt sem ég veit um eru fyrirmyndar bændur og vilja allt fyrir sínar skepnur gera.“

Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi í Vestur-Húnavatnssýslu sem missti fjögur, segir síðustu daga hafa verið gríðarlega erfiða. Nánar verður rætt við Magnús í Kastljósi í kvöld.