Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bændur að mestu ótryggðir fyrir óveðurstjóni

19.01.2020 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Bændur eru að mestu ótryggðir fyrir því mikla tjóni sem þeir urðu fyrir í óveðrinu á Norðurlandi í síðasta mánuði. Tjón á girðingum er talið Bjargráðasjóði ofviða og tryggingar bæta ekki afurðatjón eða tjón á búfénaði. Þessar hamfarir hafa reynt verulega á bændur og margir þurfa aðstoð við að vinna úr því.

Bændasamtök Íslands óskuðu sérstaklega eftir því að hópur sem stjórnvöld settu á laggirnar, til að fjalla um afleiðingar óveðursins á Norðurlandi í desember, fjallaði einnig um leiðir til að mæta tjóni bænda í óveðrinu. Guðrún Tryggvadóttir, formaður bændasamtakanna, segir tjónið margþætt.

Tryggingar bæta ekkert nema foktjón á húsum

Og hún segir að tryggingar bæti ekkert af þessu, nema foktjón á húsum. Bændur geti ekki tryggt sig fyrir afurðatjóni eða tjóni á búfénaði. „Það er náttúrulega afurðatjón hjá kúabændum af völdum rafmagnsleysis. Það liggur náttúrulega ekki fyrir hvað er ennþá og kemur ekki í ljós fyrr en snjóa leysir. Og svo varð náttúrulega tjón á búfénaði, aðallega hestum.“ 

Fordæmi fyrir því að ríkið hlaupi undir bagga

Þarna verði því að leita annarra leiða til að bæta bændum tjónið. Það séu fordæmi fyrir því að ríkið bregðist við þegar slík stóráföll verða. „Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir tjónið ekki, Bjargráðasjóður kemur bara inn á girðingar. Og í rauninni er tjón á girðingum kannski álitið það stórt að það sé stærra en það að sjóðurinn ráði við það,“ segir Guðrún.    

Mikilvægt að halda utan um fólk og veita áfallahjálp

En það er ekki aðeins fjárhagslegt tjón sem þarf að bæta, segir Guðrún. Óveðrið og afleiðingar þess hafi reynt mjög á fólk andlega og úr því þurfi að vinna. „Já þetta eru náttúrulega bara áföll eins og gefur að skilja og þá þarf sérstaklega að halda vel utan um fólk. Og þetta er það sem við Íslendingar erum búnir að vera hægt og rólega að læra, mikilvægi áfallahjálpar og að halda vel utan um. Og það er verið að byrja að vinna að því og er náttúrulega verið að óska eftir aðstoð við það líka.“