Bændasamtökin um Brúneggjamálið: Óafsakanlegt

29.11.2016 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bændasamtök Íslands fordæma illa meðferð á dýrum og hafa lagt áherslu á að íslenskur landbúnaður sé til fyrirmyndar hvað varðar dýravelferð og góðan aðbúnað. Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að myndirnar sem birtust landsmönnum í Kastljósþætti gærkvöldsins séu sláandi. Brúneggjamálið valdi miklum vonbrigðum, það sé óafsakanlegt og er harmað.

Samtökin segja að málið sé fordæmalaust hér á landi og beri búskapnum á viðkomandi eggjabúum slæmt vitni. Það valdi vonbrigðum að heyra af slæmum aðbúnaði varphænsna hjá Brúneggjum ehf. á síðustu árum undir yfirskini vistvænnar framleiðslu. Fólki hafi verið talin trú um að velferð varphænsnanna sé tryggð og virðist því vera að neytendur hafi verið blekktir um árabil.

Bændasamtökin hafa áður lýst yfir mikilvægi þess að eftirlit sé gott með þeim sem stunda landbúnað og matvælaframleiðslu og farið sé eftir lögum og reglum í hvívetna. Ný lög um velferð dýra tóku gildi í ársbyrjun 2014. Þar má finna mjög framsæknar reglur um velferð dýra og fylgja innleiðingu þeirra miklar áskoranir fyrir landbúnaðinn enda gera lögin ríkari kröfur til aðbúnaðar en áður hefur tíðkast. Markmið laganna sé að tryggja velferð og heilbrigði dýra með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. 

Í tilkynningunni segir enn fremur að hlutverk Matvælastofnunnar sé að gæta þess að mál líkt og Brúneggjamálið komi ekki upp. Það vakni því nú upp spurningar af hverju mál geta velkst um í kerfinu í árabil og lítið sé aðhafst. Þá sé mikilvægt að tryggja að mál sem þetta endurtaki sig ekki. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Skjöl