Bænastund í Hafnarfjarðarkirkju

18.01.2020 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - Fréttastofa RÚV
Haldin verður samveru- og bænastund í Hafnarfjarðarkirkju í dag vegna slyss í gærkvöld þegar bíll, með þremur piltum í, fór í sjóinn við Óseyrarbryggju. Ástand tveggja piltanna er alvarlegt og voru þeir fluttir á gjörgæsludeild Landspítala. Sá þriðji var lagður inn á aðra deild á spítalanum og er líðan hans eftir atvikum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, segir að samfélagið sé slegið vegna slyssins. „Eðlilega mjög svo, þannig að menn eru svona að átta sig og líka svona að fá fréttir, hvernig gengur og hvernig líðan þessara ungu manna er,“ segir hann.

Haldin verður bænastund í Hafnarfjarðarkirkju í dag. Kirkjan verður opnuð klukkan 16 og bænastundin hefst klukkan 17. „Síðan veit ég að aðrir aðilar líka eru að undirbúa að styðja við unga fólkið og samfélagið, áfallateymi bæjarins og Rauði krossinn og ég held að skólarnir séu líka að undirbúa að taka á móti unga fólkinu eftir helgina. Þannig að það eru ýmsir sem leggja af mörkum þegar svona alvarlegt gerist,“ segir Jón Helgi.

Hægt er að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að fá nánari upplýsingar um aðstoð áfallateymisins.

Neyðarlína fékk tilkynningu um slysið klukkan 21:08 í gærkvöld og þá var ekki vitað hve margir voru í bílnum. Þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang, klukkan 21:17, var einn kominn út úr bílnum. Kafarasveit sótti þá tvo sem voru enn í bílnum og kom þeim í land, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Allir voru komnir á land 21:38, 30 mínútum eftir að útkallið barst. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi