Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bæjarstjórnin vill láta loka strax

26.03.2017 - 18:37
Mynd með færslu
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.  Mynd: RÚV
Bæjarstjórnin í Reykjanesbæ vill að starfsemi kísilverksmiðju United Silicon verði stöðvuð strax. Dósent í eiturefnafræði segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur ef arseníkmengun fer yfir umhverfismörk.

Eitt af þeim mengunarefnum sem eru mæld frá verksmiðjunni er arsen, sem er líka kallað arseník. Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að það færi mest í 0,32 nanógrömm á rúmmetra í andrúmslofti. Það hefur hins vegar mælst tuttugufalt meira, á bilinu sex til sjö nanógrömm. Umhverfismörkin eru sett við sex nanógrömm, en Umhverfisstofnun telur að þegar árið 2017 verður gert upp geti ársmeðaltalið verið yfir þeim mörkum.

Kristín Ólafsdóttir, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, sagði í fréttum í dag að full ástæða væri fyrir íbúa að hafa til áhyggjur ef arseníkmengun fer yfir viðmiðunarmörk. Arseník sé krabbameinsvaldandi. Arseníkmengun í andrúmslofti valdi aðallega lungnakrabbameini, en líka húðkrabbameini. Full ástæða sé til að taka slíka mengun alvarlega.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, segir að bæjarstjórnin sé eiginlega orðlaus yfir vinnubrögðum eigenda verksmiðjunnar.

„Það eina sem skiptir máli er hagur íbúa, og að mínu mati þá verður að loka verksmiðjunni strax. Þetta er algjörlega óásættanlegt.“

Friðjón segir að það standist ekkert af því sem farið hafi verið af stað með í upphafi. Ekki sé til nein afsökun fyrir þessu lengur, og það verði einfaldlega að loka meðan viðgerð fer fram. Í morgun hafi bæjarstjórnin sent Umhverfisstofnun bréf og óskað eftir fundi strax.

„Við munum krefjast þar skýrra svara um að þetta stoppi.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að full ástæða sé til þess að ræða málið í samstarfsnefnd um sóttvarnir, þar sem hann situr með fulltrúum Umhverfisstofnunar og fleirum, með tilliti til þess hvaða heilsufarsáhrif þetta gæti haft og til hvaða aðgerða þurfi að grípa.

Friðjón segir að bæjarbúar hafi verið þolinmóðir, en nú sé mikil óánægja meðal þeirra.

„Það er nánast hvar sem maður kemur. Ég var að koma úr sundlaugunum rétt áðan, og þar var þetta helsta umræðuefnið.“

Kolbrún Jóna Pétursdóttir bæjarfulltrúi segir á Facebook að loka eigi verksmiðjunni og ekki eigi að opna hana aftur fyrr en búið sé að ná tökum á öllum þeim vandamálum sem hafa komið upp.