Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bæjarstjórinn í Eyjum: „Þetta hefur ekki gerst áður“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur - RÚV
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, segir að hertar reglur um samkomubann í bænum séu „í okkar eigin þágu.“ Það skipti máli að Eyjamenn taki höndum saman um þetta stóra samfélagsverkefni og farið að þeim fyrirmælum og tilmælum sem gefin séu út hverju sinni. 27 hafa sýkst af kórónuveirunni í Eyjum og nær 400 eru í sóttkví.

Aðgerðarstjórn almannavarna kynnti í gær hertar reglur um samkomubann í Vestmannaeyjum. Þar eru fjöldasamkomur með fleiri en tíu bannaðar.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við fréttastofu að allmörg smit virtust eiga uppruna sinn úr ólíkum áttum. Fram kom í fréttum RÚV fyrir helgi að spjótin beindust meðal annars að bikarúrslitaleik ÍBV og Stjörnunnar í handbolta.

Í færslu á Facebook segir Íris að ástandið nú sé ólíkt öllu sem hafi þekkst áður. Ekki sé því hægt að notfæra sér fyrri reynslu nema að litlu leyti til að takast á við þetta.  „Þetta hefur ekki gerst áður. Ekki svona.“

Hún segir að aðgerðirnar feli í sér talsverðar breytingar á daglegu lífi í Eyjum. „Hertar reglur um samkomubann eru í okkar eigin þágu. Það skiptir miklu máli að við tökum höndum saman um þetta stóra samfélagsverkefni og förum að þeim fyrirmælum og tilmælum sem gefin eru hverju sinni sinni.“

Hún minnir Eyjamenn engu að síður á að þetta taki enda og það komi bráðum sól og sumar. „Höldum ró okkar og sýnum þann samtakamátt og samhug sem einkennir okkar góða og kraftmikla samfélag.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV