Bæjarstjórinn í Eyjum man ekki eftir verra veðri

11.12.2019 - 10:30
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
„Þetta er með því versta sem hefur verið sem þeir tala um hjá björgunarfélaginu,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Við erum nokkuð vön vindi hérna en ég held að þetta hafi allavega verið eins vont og við gátum búist við.“

Meðfylgjandi myndskeið er frá Ástþóri Jónsson og vefsíðunni tígull.is.

Mikið tjón varð í veðrinu í Vestmannaeyjum í gær. Björgunarfélagið í Vestmannaeyjum fór í 100 útköll. Bílar fuku, heil hlið fauk af húsi Ísfélagsins og þakið fauk af Vinnslustöðinni. „Það er að koma meira og meira í ljós. Við erum að fara yfir eignir Vestamannaeyjabæjar og það er að detta ýmislegt inn. Lögreglan bað fólk að teipa stórar rúður því þetta var rosalegt veður,“ segir Íris.

„Við erum bara svo ótrúlega heppin að vera með svona frábæra aðila í björgunarsveitinni,“ segir Íris. „Ég veit ekki hvernig við Íslendingar hefðum það af ef það væri ekki fyrir björgunarsveitirnar.“

 „Það byrjaði aðeins að blása upp úr þrjú og svo kannski upp úr fimm var þetta farið að blása svolítið mikið. En svo varð allt vitlaust í kringum kvöldmat. Það var 40 m/s vindur á Stórhöfða og 52 m/s í hviðum.“

Flestir þeir sem fréttastofa hefur rætt við telja með ólíkindum að ekki hafi orðið slys á fólki. Íris tekur undir það.

„Það er sama hér. Þeir tala um að fólk hafi bara verið vel undirbúið. við erum með talsvert af skipum og bátum hérna. Það þurfti að huga að einni trillu út af dælu. Fólk var vel undirbúið og trúði því að það væri að koma vont veður og það hjálpar mjög mikið í svona ástandi,“ segir Íris.

„En þeir voru að klára núna í björgunarfélaginu hjá okkur 100 útkallið. Og þeir verða með vakt fram eftir degi því veðrið er ennþá mjög vont.“

Samkvæmt veðurspánni þá á að lægja í Vestmannaeyjum síðdegis í dag. Þar hefur ekki verið eins mikil úrkoma og nyrðra en fullt af rusli fýkur ennþá í Heimaey sem fór af stað í gær.

Mynd: Aðsent / Aðsent
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV