Bæjarstjóri skoðar mál Guðmundar Geirdal

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarstjórinn í Kópavogi ætlar að skoða mál bæjarfulltrúa og samflokksmanns síns sem var nýverið dæmdur til að greiða 50 milljónir í sekt. Hann vill þangað til ekki tjá sig um hæfi bæjarfulltrúans til að gegna trúnaðarstörfum fyrir bæinn.

Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, var dæmdur til að greiða þrotabúi Sælindar ehf. 50 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna þess er skiptastjóri búsins taldi gjafagjörning. Hann hyggst áfrýja málinu og sagði í síðustu viku að það hefði ekki áhrif á störf hans sem kjörins fulltrúa.

Theodóra Þorsteinsdóttir, fulltrúi BF-Viðreisnar í bæjarstjórn, sagði dóminn hins vegar alvarlegan og telur rétt að Guðmundur víki úr nefndum og ráðum á vegum bæjarins þar til endanleg niðurstaða fæst.

Frétti af málinu fimm dögum eftir að dómur féll

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins, segist hafa vitað að það hafi verið mál í gangi en hann hafi ekki frétt af niðurstöðunni fyrr en á þriðjudaginn, fimm dögum eftir að dómur féll. Fréttastofa greindi frá málinu daginn eftir og segir Ármann að síðar þann dag hafi hann rætt stuttlega við Guðmund. „Ég satt best að segja þarf að fara betur yfir lögfræðilega hlið málsins.“

Leitar til þeirra sem hafa kunnáttu

Spurður að því hvort hann deili því mati Guðmundur að málið hafi ekki áhrif á störf hans sem kjörinn fulltrúi svarar Ármann:  „Eins og ég segi, þá á ég eftir að fara yfir lögfræðilega hlið málsins. Þetta er mjög flókinn dómur þannig að ég er í rauninni ekki tilbúinn til að tjá mig neitt meira um það á þessari stundu.“

Ármann segir að skoða murfi málið út frá mörgum hliðum. „Ég mun ekki setja neina vinnu í gang hér innanhúss hjá mér heldur mun ég leita til þeirra sem hafa kunnáttu á þessum málum. Það er ekki bara lögfræðin sem þarf að skoða. Ég mun bara fara yfir það.“  

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi