Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bæjarstjóri og söngvari áttu fund um Þjóðhátíð

22.07.2016 - 09:08
Mynd með færslu
Unnsteinn Manúel er lengst til vinstri á myndinni.  Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, átti fund í Reykjavík í gær með Unnsteini Manúel Stefánssyni söngvara í Retro Stefson um Þjóðhátíð og viðbúnað gegn kynferðisbrotum á hátíðinni.

Retro Stefson er ein af sjö hljómsveitum sem hafa lýst því yfir að þær komi ekki fram á Þjóðhátíð nema stefnubreyting verði á upplýsingagjöf lögreglu um kynferðisbrotamál á hátíðinni. Elliði vildi lítið ræða um efni fundarins og taldi sig ekki hafa heimild til að ræða hvað fram hefði komið í þeirra samtali.

Elliði segir að Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sem er í Reykjavík í sumarleyfi, hafi einnig komið á fundinn. Elliði leggur áherslu á að bæjaryfirvöld hafi ekki aðkomu að Þjóðhátíð að öðru leyti en að leggja til aðstöðu. Hann telji að mæta þurfi því sem þessar hljómsveitir benda á en það sé milli þjóðhátíðarnefndar og listamannanna. Þá verði lögreglan aldrei þvinguð í eitt né neitt og hún myndi aldrei taka ákvarðanir sem kunni að gagnast einungis hagsmunum þjóðhátíðar. Elliði segir að þeir Unnsteinn Manúel ætli að tala saman aftur seinna í dag. 

Elliði segir að það sé sameiginlegt hagsmunamál þeirra Unnsteins hvernig draga megi úr kynferðisbrotum og líkum á því að brotið sé á fólki.  Elliði segir að það sé ekki markmið hans að tryggja að hljómsveitirnar komi fram þótt hann vonist til þess að þær geri það. Listamennirnir hafi fullt frelsi til að velja hvar þeir spila. Hægt verði að leysa þetta mál eins og hver önnur. 

Málið hófst með yfirlýsingu sem hljómsveitirnar og listamennirnir Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas sendu frá sér í gær. Hljómsveitin Dikta og rapparinn GKR bættust í hópinn síðar um daginn og hljómsveitin Quarashi lýsti stuðningi við ákvörðun listamannanna.