Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar lætur af störfum

27.01.2020 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar og lætur hann af störfum nú þegar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Ástæða starfsloka er sögð vera ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. Telja hlutaðeigandi það sveitarfélaginu fyrir bestu að leiðir skilji.

Í tilkynningunni kemur fram að það skýrist á næstu dögum hvernig ráðningu á næsta bæjarstjóra verði hagað. Þangað til verður bæjarritari staðgengill bæjarstjóra. 

Guðmundur segir í samtali við fréttastofu að hann ætli ekki að tjá sig frekar um ástæðu starfslokanna. Hann segir þó að þau tengist ekki eintökum atburði heldur heildarsýninni Þá tengjast starfslokin ekki snjóflóðunum sem féllu á Flateyri og Suðureyri fyrr í mánuðinum.

Í tilkynningunni segir að meirihluti bæjarstjórnar þakki Guðmundi fyrir samstarfið og jafnframt segir Guðmundur það heiður að hafa fengið tækifæri til að vinna að mikilvægum hagsmunamálum Vestfirðinga.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi