Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bæjarblað Garðabæjar sektað fyrir auglýsingu golfmóts

23.12.2019 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölmiðlanefnd hefur sektað Garðapóstinn, bæjarblað Garðbæinga, fyrir að birta auglýsingu um Sumarsólstöðumót Stella Artois sem haldið var af GKG, Golfklúbbi Garðabæjar og Kópavogs í sumar. Fjölmiðlanefnd taldi auglýsinguna ekki aðeins vera fyrir golfmót heldur hefði henni einnig verið ætlað að vekja sérstaka athygli á vörumerkinu Stella Artois. Þetta er í annað sinn sem bæjarblaðið brýtur fjölmiðlalög með auglýsingu fyrir golfmótið.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum kvörtuðu undan auglýsingunni í júlí. Þau lögðu fram skjáskot af verðlista umboðsaðila Stella Artois þar sem fram kemur að allar innfluttar tegundir af bjórnum hafa 5 prósent áfengisinnihald. 

Samtökin bentu á að á auglýsingunni stóð meðal annars að léttar veitingar yrðu í boði fyrir þátttakendur og „auðvitað Stella Artois.“ Neðst í hægra horni auglýsingarinnar sæist síðan í vörumerki bjórframleiðandans.

Eigandi Garðapóstsins baðst afsökunar á auglýsingunni í bréfi sínu til fjölmiðlanefndar. Sagðist hann greinilega ekki þekkja reglurnar nógu vel. Hann hefði talið sig vera að auglýsa golfmót þar sem fólk væri hvatt til þátttöku.  Hann myndi tryggja að auglýsing af þessu tagi birtist ekki aftur. Tók hann þó fram að á auglýsingunni hefði hvorki mátt sjá bjórflöskur, bjórglös eða myndir af bjór.  Hann upplýsti síðan að umboðsaðili bjórsins hefði greitt fyrir auglýsinguna.

Fjölmiðlanefnd horfði til þess að fyrir þremur árum hefði hún einnig gert athugasemdir við auglýsingu fyrir golfmótið sem birtist á baksíðu Garðapóstsins.  Sá munur væri á auglýsingunum tveimur að á gömlu auglýsingunni hefði mátt sjá fullt bjórglas merkt Stella Artois og bjórflösku fyrirtækisins.   Nefndin sá hins vegar ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu og var bæjarblaðið því sektað um fimmtíu þúsund krónur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV