Bæjarar léku sér að Chelsea í Lundúnum

epa08247817 Bayern's Serge Gnabry celebrates scoring the second goal during the UEFA Champions League Round of 16, first leg match between Chelsea FC and Bayern Munich in London, Britain, 25 February 2020.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Bæjarar léku sér að Chelsea í Lundúnum

25.02.2020 - 21:55
Tveir leikir fóru fram í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Chelsea tók á móti Bayern München í Lundúnum og Barcelona heimsótti Napolí.

Chelsea og Bayern München voru að mætast í fyrsta sinn frá því að Chelsea lagði þá þýsku í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í München vorið 2012. Leikur liðanna var mikil skemmtun og þrátt fyrir færi á báða bóga í fyrri hálfleik var staðan markalaus í leikhléi.

Serge Gnabry, leikmaður Bayern og fyrrum leikmaður Arsenal á Englandi, vakti heimsathygli þegar hann skoraði fjögur mörk í 7-2 sigri Bæjara á Tottenham í Lundúnum í október. Gnabry virðist kunna vel við sig í Lundúnum þar sem hann kom Bayern í forystu þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik eftir laglega sókn. Sókn Bæjara þremur mínútum síðar var ekki síðri sem lauk aftur með marki Gnabry og staðan því orðin 2-0 fyrir gestina.

Pólverjinn Robert Lewandowski lagði upp bæði mörk Gnabry en hann fann sjálfur netmöskvana þegar hann lagði boltann í markið af stuttu færi eftir frábæran sprett Kanadamannsins Alphonso Davies upp vinstri kantinn. Lewandowski er markahæstur í keppninni í ár með ellefu mörk, marki meira en Norðmaðurinn Erling Braut Håland.

Eitthvað fóru yfirburðir þeirra þýsku í taugarnar á Marcos Alonso, bakverði Chelsea, sem fékk að líta beint rautt spjald eftir skjádóm rúmum fimm mínútum fyrir leikslok. Spjaldið fékk Alonso fyrir að slá í andlit Lewandowski.

3-0 urðu lokatölur Bayern München í vil sem verða því með þriggja marka forystu þegar liðin mætast í síðari leiknum í Bæjaralandi 18. mars.

Jafnt í Napolí

Á Ítalíu tók Napoli á móti Barcelona. Leikur liðanna var tíðindalítill framan af en Belginn Dries Mertens kom heimamönnum í foyrstu með góðu innanfótarskoti frá vítateigslínunni eftir hálftímaleik. 1-0 stóð allt fram á 57. mínútu þegar Antoine Griezmann jafnaði fyrir Barcelona af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Nélson Semedo.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki en Sílebúinn Arturo Vidal fékk að líta rautt spjald áður en yfir lauk. Hann fékk þá tvö gul spjöld á sömu mínútunni, annars vegar fyrir slæma tæklingu og hins vegar fyrir almenna stæla í kjölfarið. Hann verður því fjarverandi þegar liðin mætast á Nývangi 18. mars.