Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Bæði sorglegt og gleðilegt“ að standa á stóra sviðinu

Mynd: Rafael Roy / RÚV

„Bæði sorglegt og gleðilegt“ að standa á stóra sviðinu

11.02.2020 - 10:38

Höfundar

„Það er svolítið erfitt fyrir mig að tala um hann því að ég er ekki alveg búin að jafna mig á því að hann sé farinn, og öllu því ferli. Þannig að ég treysti mér ekki til þess að tala um það í gær,“ segir Hildur Guðnadóttir tónskáld, sem hlaut Óskarsverðlaunin í fyrrinótt. Á sunnudaginn, daginn sem verðlaunin voru afhent, voru liðin nákvæmlega tvö ár síðan Jóhann Jóhannsson tónskáld, og náinn samstarfsmaður Hildar, lést í Berlín. Hildur segist hafa hugsað mikið til hans á verðlaunahátíðinni.

Anna Marsibil Clausen dagskrárgerðarmaður ræddi við Hildi í Los Angeles í gær, daginn eftir að verðlaunin voru afhent. Viðtalið verður sýnt í Menningunni á RÚV kl. 19:50 í kvöld, en í spilaranum hér að ofan má sjá hluta viðtalsins.

Í viðtalinu segir Hildur meðal annars að það hafi verið ótrúleg tilfinning að heyra nafnið sitt lesið upp á verðlaunahátíðinni.

„Það var smá sjokk. Það kom eins og smá raflost. En það var ótrúlega falleg tilfinning og aðallega fallegt að koma upp á svið og sjá allan salinn standa upp og finna velviljann og fegurðina koma frá salnum, það var alveg ótrúlega hjartnæmt.“

Varstu sigurviss fyrir kvöldið?

 Ja, svona. Það var mikið búið að vera af spám og ég var búin að vera efst á blaði þar, þannig að ég vissi alveg að þetta væri möguleiki. En auðvitað gerir maður sér aldrei grein fyrir því fyrr en maður er kominn ofan í umslagið.“

„Magnað að sjá hann dansa“

Hildur samdi tónlistina fyrir Joker áður en tökur á myndinni hófust. Joaquin Phoenix sem fer með titilhlutverkið hefur lýst því hvernig hann umbreyttist í Jokerinn við það að hlusta á tónlist Hildar. Þetta sést ekki hvað síst í baðherbergissenunni frægu.

„Todd Phillips leikstjóri var að klára handritið og hann spurði mig hvort ég væri tilbúin til þess að byrja að semja tónlistina, byggða á tilfinningu minni af handritinu,“ segir Hildur. „Og ég var mjög spennt fyrir því af því að þetta var náttúrulega ótrúlegt handrit sem snerti mig rosalega djúpt. Þannig að ég skrifaði tónlist byggða á því, sem þeir gátu svo notað í tökunum. Og það var ótrúlegt að sjá hvernig hann tengdi algjörlega inn á það sem ég hafði upplifað þegar ég var að skrifa tónlistina, og algjörlega magnað að sjá hann dansa tónlistina algjörlega organískt, án þess að við hefðum haft nein orð um það. Og þessi sena er ekkert skrifuð svona þannig að ég gat ekki ímyndað mér að hann myndi tengja algjörlega inn á hvað ég var að upplifa. Því ég hafði upplifað ótrúlega svipaðar hreyfingar, leiddar af höndunum eins og hann gerir. Þannig að það var ótrúlega magnað að sjá hann tengja inn á þetta og í raun samstarf sem ég hef aldrei upplifað áður. Yfirleitt þarf maður að „diskútera“ hlutina: „Þetta á að vera svona og þannig líður honum þarna og það þarf að klippa hér.“ Og bara æðislegt að geta unnið verkefni af þessari stærðargráðu sem er svona organískt og án samtals.“

Míkrófónsnúrur

Í verðlaunaræðu sinni í fyrrinótt hvatti Hildur konur í tónlist til dáða. Sjálf hefur hún upplifað vantraust í sinn garð.

„Ég fann að fólk var svolítið ragt til þess að treysta mér fyrir stærri verkefnum. En ég vildi aldrei trúa því að það væri af því að ég væri kona og lét það svolítið sem vind um eyru þjóta og hugsaði: „Þetta er bara rugl, ég geri þetta samt.“ Þannig að ég tók svolítið langt þrjóskukast þar sem ég virkilega þurfti að stíga fast til jarðar til þess að fá að koma fætinum inn um dyrnar, til þess að sanna að ég gæti ráðið við þetta. Og einmitt ekki bara fyrir mig, heldur líka fyrir konur í bransanum. Ég fann að ég var að fá þarna smá meðbyr og tækifæri til þess að mjaka einhverjum dyrum opnum. Og varðandi konur í tónlist yfirhöfuð, og kventónskáld, þá er oft talað niður til okkar. Og maður hefur stundum þurft að sitja undir ótrúlegustu útskýringum. Það er verið að útskýra fyrir manni hvað míkrófónsnúra er. Og maður segir bara: „Já takk fyrir þetta.““

Jóhann Jóhannsson tónskáld var náinn samstarfsmaður Hildar. Á sunnudaginn, daginn sem Óskarsverðlaunin voru veitt, voru nákvæmlega tvö ár síðan hann lést.

„Það er svolítið erfitt fyrir mig að tala um hann því að ég er ekki alveg búin að jafna mig á því að hann sé farinn, og öllu því ferli. Þannig að ég treysti mér ekki til þess að tala um það í gær [innskot: á verðlaunahátíðinni í fyrradag]. En að sjálfsögðu hafði það rosalega mikil áhrif á mig að þetta var dagurinn sem hann dó fyrir akkúrat tveimur árum. Þannig að það var bæði sorglegt og gleðilegt fyrir mig að standa uppi á þessu sviði á þeim degi. Og ég hugsaði mikið til fjölskyldunnar hans og hugur minn er ennþá hjá þeim. En ég hugsaði mikið til hans og ég vona að hann sé sáttur þar sem hann er.“

Ítarlegt viðtal við Hildi verður sýnt í Menningunni á RÚV í kvöld, klukkan 19:50.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur „flaggskip fjölskyldunnar“ að mati bræðranna

Kvikmyndir

Hildur um sigurinn: Þetta var býsna brjálað augnablik

Menningarefni

Hildur vann Óskarinn fyrst Íslendinga

Menningarefni

Verður Hildur fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskar?