Baddi fær grænt ljós en Baltazar ekki

Mynd með færslu
Baltasar Kormákur lék Badda í Djöflaeyju Friðriks Þórs. Baddi er gjaldgengt nafn samkvæmt mannanafnanefnd en Baltazar með z ekki. Mynd: Skjáskot - RÚV

Baddi fær grænt ljós en Baltazar ekki

27.02.2017 - 18:23

Höfundar

Mannanafnanefnd hefur hafnað kvenmannsnafninu Zophiu og karlmannsnafninu Baltazar. Þá féllst mannanafnanefnd heldur ekki á millinafnið Mar þar sem það hefur stöðu ættarnafns. Nöfnin Baddi, Vivian og Nathanel fengu aftur á móti grænt ljós hjá nefndinni.

Úrskurðirnir voru birtir á vef nefndarinnar í síðustu viku.  Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að ritháttur nafnsins Baltazar teljist ekki hefðaður og því sé óhjákvæmilegt að hafna þeirri beiðni og sömu rök gilda um nafnið Zophia. Í úrskurði nefndarinnar kemur þó fram að hefð sé fyrir því að skrifa nafnið með -ía endingu.

Millinafnið Mar komst heldur ekki í gegnum nálarauga mannanafnanefndar þar sem nafnið hefur stöðu ættarnafns.  Nefndin bendir á í úrskurði sínum að miðað við gögn málsins bendi flest til þess að viðkomandi vilji nota Mar-nafnið í listrænum tilgangi. Í því samhengi telur mannanafnanefnd rétt að benda á að einstaklingum sé „jafnan frjálst að nota listamannsnöfn á ýmsum vettvangi þó þau séu ekki á mannanafnaskrá,“ eins og það er orðað í úrskurðinum.

Nöfnin Lofthildur og Vivian fengu grænt ljós hjá nefndinni.  Hefð telst fyrir rithætti Vivian þar sem fimm konur bera nafnið samkvæmt þjóðskrá. Kelddal var einnig samþykkt sem millinafn og eiginnafnið Steðji sömuleiðis.

Þá féllst nefndin einnig á eiginnafnið Badda enda tekur það íslenskri beygingu í eignarfalli.