Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auknar líkur á raforkuskorti vegna gagnavera

13.07.2019 - 12:15
epa03741835 A general view shows the inside of the server hall of Facebook in the city of Lulea, some 900 km north of Stockholm, Sweden, 12 June 2013. Facebook started processing data through its first server farm outside the United States. The company
Mynd tekin í gagnaveri Facebook í Svíþjóð. Mynd: EPA
Landsnet telur líkur á raforkuskorti innan þriggja ára, miðað við áætlaða notkun almennings og stórnotenda. Langstærsti hluti raforkunotkunar á Íslandi fer til stóriðju, eða um 83%.

Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets um afl- og orkujöfnuð fyrir árin 2019-2023 fara líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörk árið 2022, miðað við áætlaða notkun og núverandi virkjanaáform. Við útreikningana var ekki horft til nýrrar stórnotkunar nema þar sem búið er að ganga endanlega frá öllum samningum um orku og tengingu við flutningskerfið.

Þurfi að auka framleiðslu eða minnka álag

Líkur á aflskorti eru taldar lágar til ársins 2021 en hækka svo eftir það. Það stafar af því að úttekt frá flutningskerfinu mun aukast meira en áður var reiknað með, aðallega vegna aukinnar notkunar hjá gagnaverum. Til að halda á líkum á aflskorti undir viðmiðum Landsnets þurfi því auka raforkuframleiðslu, eða að minnka álag, segir í skýrslunni. Um 83% raforku á Íslandi fara til stóriðju.

Gagnaverum hefur fjölgað hratt á Íslandi undanfarin ár. Nýtt gagnaver Etix hóf störf á Blönduósi fyrr á þessu ári og verið er að reisa eitt stærsta gagnaver landsins við Korputorg í Reykjavík. Orkuþörf þess verður á við öll heimili landsins samanlagt. Helsta verkefni gagnavera á Íslandi er svokölluð HPC-vinnsla, sem er mestmegnis Bitcoin-gröftur, sem krefst mikillar orkunotkunar en minni gagnaflutnings.