Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aukin hernaðarumsvif áhyggjuefni

24.06.2019 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að áform Bandaríkjahers um sjö milljarða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli feli ekki í sér að verið sé að endurvekja gömlu herstöðina á svæðinu. Hún segir að aukin hernaðarumsvif á norðurslóðum séu áhyggjuefni.

 

Samkvæmt fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir 2020 verður 57 milljónum dollara varið til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, eða sem nemur um sjö milljörðum króna.

Forsætisráðherra segir að framkvæmdirnar eigi rætur að rekja til yfirlýsingar sem íslensk og bandarísk stjórnvöld undirrituðu árið 2016. Þetta sé einnig í samræmi við þjóðaröryggisstefnu sem allir flokkar á Alþingi nema Vinstri græn hafi samþykkt á sínum tíma.

Hún segir að aukin hernaðarumsvif á norðurslóðum séu áhyggjuefni.

„Ég hef auðvitað áhyggjur af því, ekki síst þegar við horfum bæði til norðurhafa og líka norðurslóða, sem hingað til hefur ríkt ákveðin þverþjóðleg samstaða um að þar eigi að halda slíkri hernaðarvæðingu í lágmarki,“ segir Katrín.

Hún segir að með uppbyggingunni í Keflavík sé ekki verið að endurvekja gömlu herstöðina.

„Nei, ég myndi ekki segja það. Það mun ekki koma til að hér verði aftur herseta, alla vega ekki á meðan við erum í ríkisstjórn, en það liggur hins vegar fyrir að með þessari uppbyggingu og í rauninni undanfarin ár hefur viðveru hermanna á varnarsvæðinu í Keflavík og hersvæðinu í Keflavík, hún hefur aukist,“ segir Katrín.

Alþingi samþykkti í síðustu viku að færa 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar til útgjalda vegna mannvirkja Nató á Keflavíkurflugvelli. Tveir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu málsins. Katrín segir að með þessu sé ekki verið að hverfa frá stefnu stjórnvalda varðandi þróunarsamvinnu.

„Það kom skýrt fram af hálfu meirihlutans að framlög til þróunarsamvinnu þau munu verða uppfærð við gerð fjárlaga. Þar verður miðað við þá áætlun sem að Alþingi hefur samþykkt um þróunarsamvinnu sem er í takt við stjórnarsáttamála og miðast við hlutfall af landsframleiðslu,“ segir Katrín. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV