Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aukið mikilvægi Íslands

05.09.2019 - 08:25
Mynd:  / 
Silja Bára Ómarsdóttir dósent í alþjóðasamskiptum í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, telur að aukin áhersla Kína á norðurslóðir hafi leitt til þess að heimshlutinn og sambandið við Íslands vegi nú þyngra hjá bandarískum stjórnvöldum. Þetta megi sjá á heimsókn varaforseta Bandaríkjanna Mike Pence í gær og utanríkisráðherrans Mike Pompeo í febrúar.

Hún telur að öryggishagsmunir Bandaríkjanna vegi þar þyngra en viðskiptahagsmunir. Dregið hafi úr hernaðarumsvifum Rússa í kringum Ísland frá því sem var en Kínverjar leggi áherslu á flutningaleiðir framtíðarinnar um norðurslóðir.  

„Hafa Bandaríkin einhverjar vísbendingar um að Kína sé að auka sín umsvif eða er þetta hreinlega forvarnaraðgerð að vera viss um að kínversk áhrif verði ekki ráðandi hér á svæðinu, bæði hér á Íslandi og Grænland kemur inn í það líka. Kína hefur mikinn áhuga á námavinnslu, þeir málmar og aðrar auðlindir sem kann að vera að finna þegar ísinn bráðnar á Grænlandi. Kínverjar, með belti og braut, er að leggja áherslu á alla innviði bæði á sjó og landi, flutningaleiðir framtíðarinnar. Þannig að Bandaríkin hafa kannski litið norður í fyrsta skipti í mjög langan tíma, vegna þess að áherslan hefur verið á Mið-Asíu og Miðausturlönd frá aldamótum og áttað sig á því að þau voru bara komin á eftir.“

innviða- og fjárfestingaverkefnið „Belti og braut“, sem Kínverjar hafa staðið fyrir undanfarin ár, miðar að því að efla samgöngur til og frá Kína. Fjölmörg ríki hafa samþykkt að taka þátt í verkefninu, en það hafa Íslendingar ekki gert. Ekki er þó vitað til þess að Íslendingar hafi hafnað því að taka þátt í verkefninu. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna fullyrti hins vegar á blaðamannafundi fyrir utan Höfða í gær að Íslendingar hefðu hafnað þátttöku og sagði bandarísk stjórnvöld þakklát fyrir það. Silja Bára var spurð að því á Morgunvaktinni hvort Pence hefði með þessu verið að gefa þau skilaboð að Íslendingar ættu að hafna þátttöku? Því hann ætti að vita Íslendingar væru ekki búnir að hafna því. „Ég las það þannig, já. Að Bandaríkin vildu sjá Ísland standa fyrir utan þetta verkefni, sérstaklega í ljósi þess að kínverski sendiherrann hafði talað um að íslensk stjórnvöld væru jákvæð fyrir þessu verkefni. Sagði ekkert um að hér væri búið að ganga frá einhverjum samningum.“ 

Hægt er að hlusta á allt viðtal Jóhanns Hlíðar Harðarsonar við Silju Báru í spilararanum hér fyrir ofan.