Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aukið fjármagn í Akureyrarflugvöll ekki í augsýn

25.11.2019 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Samgönguráðherra segir fullljóst að fara þurfi í aukna uppbyggingu á Akureyrarflugvelli þótt fjármagn til þess liggi ekki fyrir á næstunni. Nú sé komin heimild til að semja við heimamenn um leigu eða kaup á flugstöð.

Hörð viðbrögð hafa orðið við því að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu Akureyrarflugvallar næstu fimm árin. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að auka þurfi fjármagn til flugvalla almennt og þegar uppfærð samgönguáætlun fari fyrir Alþingi komi í ljós hvernig brugðist verði við því.

Áherslan fyrst og fremst á flugöryggi

Það þurfi að leysa verkefni á varaflugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri og nú sé áherslan fyrst og fremst á flugöryggi. 200 milljónum króna hafi verið varið í flugleiðsögubúnað á Akureyri í fyrra og stjórnvöldum sé fulljóst að fjármagn þurfi í frekari framkvæmdir þar. Á þessarri stundu liggi þó ekki fyrir hvernig því verði háttað. „Við vitum að það þarf að stækka flugstöðina. Við vitum að flughlöðin eru verkefni sem hafa beðið hér í mörg ár og fleiri þættir. En þetta er svona á radarnum.“

Ný heimild í fjárlögum auðveldi samninga um flugstöð 

Nýlega var samþykkt á Alþingi heimild í fjárlögum til að leigja eða kaupa húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Eins og fram hefur komið hefur KEA lýst vilja til að byggja við flugstöðina og leigja húsið ríkinu. Þarna segir Sigurður Ingi búið að eyða ákveðinni óvissu og þessi heimild auðveldi slíka samninga. „Nú er þá heimildin komin og hún er nokkuð opin, það er að segja að leigja eða kaupa. Þannig að hendur okkar eru minna bundnar til þess að ganga þá til samninga og samstarfs við heimamenn hér.“