Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukið atvinnuleysi í ár kostar tæpa átta milljarða

09.11.2019 - 14:30
Mynd: Marvin Mutz / Wiki Commons CC-BY-SA
Útgjöld til ábyrgðarsjóðs launa verða 7,6 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í fjarlagafumvarpi fyrir árið í ár. Þetta kemur fram i frumvarpi til fjáraukalaga sem var dreift á Alþingi í dag. Þar kemur fram að atvinnuleysi stefnir í að verða 3,5 prósent á þessu ári samanborið við 2,4 prósent í fyrra, sem að miklu leyti megi rekja til falls WOW air fyrr á árinu. 

Í fjáraukalagafrumarpinu er gert ráð fyrir að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um samtals 14,8 milljarða króna, sem er um 1,6 prósent aukning frá gildandi fjárlögum. Frávikið skýrist af fáum en stórum útgjaldamálum sem lúta aðallega að breyttum hagrænum forsendum og áhrifum sem leiða af töpuðu dómsmáli og áliti umboðsmanns Alþingis í almannatryggingakerfinu. Stærstur hlutinn er vegna hærri framlaga í ábyrgðarsjóð launa.

Dómur Landsréttar er ríkinu dýrkeyptur

Einnig er gert ráð fyrir 7,3 milljörðum í aukin útgjöld vegna almannatrygginga. Þar af vega þyngst einskiptisútgjöld vegna dóms Landsréttar um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, en áætluð áhrif þessa dóms nema um 5,4 milljörðum króna Bætur voru skertar afturvirkt með lagabreytingu frá árinu 2017 þar sem verið var að leiðrétta mistök sem voru gerð við breytingu á lögum um almannatryggingar árið áður og heimila áttu skerðingu á greiðslum til ellilífeyrisþega afturvirkt um tvo mánuði. Afturvirkni laganna var dæmd ólögmæt og Tryggingastofnun ríkisins gert að greiða til baka skerðinguna ásamt dráttarvöxtum. Alls fengu 29 þúsund einstaklingar leiðréttingu á greiðslum ellilífeyris fyrir janúar og febrúar 2017, eða sem nemur um 190 þúsund krónum á hvern ellilífeyrisþega að meðaltali. 

Þá er einnig verið að leiðrétta örorkubætur í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis væri ekki í samræmi við lög. Athugun umboðsmanns laut að því hvernig bæri að reikna tímann fram til 67 ára aldurs við ákvörðun búsetutíma í tilviki einstaklinga sem áður hafa verið búsettir innan EESsvæðisins. Áhrif af áliti umboðsmanns nema um 800 milljónum króna á árinu 2019 en alls hafa 320 manns fengið leiðréttingu það sem af er ári. 

1,5 milljarðar í sjúkratryggingar

Í þriðja lagi er gert er ráð fyrir tæplega 1,5 milljarða króna aukningu framlaga vegna halla sjúkratryggingaliða á yfirstandandi ári, sem ekki hefur verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum, en þeir heyra undir nokkur málefnasvið.
 

Tæpar átta hundruð milljónir vegna Herjólfs

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir samtals 790 milljóna króna framlagi til samgöngumála vegna ófyrirséðs viðbótarkostnaðar sem Vegagerðin þurfti að greiða vegna nýs Herjólfs. Þar er annars vegar um að ræða greiðslur til Crist skipasmíðastöðvar í kjölfar lokauppgjörs við afhendingu skipsins um mitt ár og hins vegar kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu skipsins til Vestmannaeyjabæjar.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV