Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auka skilning fólks á heilabilun

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Akureyrarbær ætlar, fyrstur íslenskra sveitarfélaga, að verða styðjandi samfélag fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra. Heilavinir hljóta fræðslu um sjúkdóminn og læra að bregðast rétt við ef einhver er í neyð.

Öldrunarheimili Akureyrar og Alzheimersamtökin vinna saman að því að gera samfélagið vinveitt og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun. Viljayfirlýsing um samstarf var undirrituð haustið 2018 en það hefst formlega í dag. „Þetta snýst í rauninni bara í stuttu máli um að samfélagið geri fólki með heilabilun kleift að lifa í samfélagi sem skilur þeirra vanda“ segir Hulda Sveinsdóttir, heilabilunarráðgjafi hjá Öldrunarheimilum Akureyrar.

Hægt að gerast heilavinur

Markmiðið er að draga úr fordómum, auka þekkingu og hjálpa fólki með heilabilun að eiga innihaldsríkt líf. Til þess þurfi að auka skilning fólks á sjúkdómnum. Einstaklingar og vinnustaðir geta óskað eftir því að gerast heilavinir og má líkja því við það að fara á skyndihjálparnámskeið. Heilavinir hljóta fræðslu um sjúkdóminn og læra að bregðast rétt við ef einhver er í neyð.

Á næstu vikum fá vinnustaðir á Akureyri fræðslu og gerast heilavinir. Með haustinu er stefnt að því að þjálfa leiðbeinendur um allt land svo allir sem vilja geti gerst heilavinir með það að markmiði að fólk finnist það velkomið í sinni heimabyggð og finni öryggi.

Mikilvægt að opna umræðuna

Ætla má að hátt í fimm þúsund Íslendingar séu með heilabilunarsjúkdóm og má reikna með verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar. Til viðbótar eru aðstandendur svo sjúkdómurinn snertir marga. 

Hulda segir fólk með heilabilun gjarnan einangrast; „Það mætir kannski sínum gömlu vinnufélögum sem vita ekki hvernig á að bregðast við, skyldi viðkomandi þekkja mig, man hún eftir mér og þess háttar“. Sjúkdómnum fylgi enn skömm og mikilvægt sé að opna umræðuna. 

Styrkur setti aukinn kraft í verkefnið

Verkefnið er alþjóðlegt og nágrannalönd okkar mörg hver komin langt á veg. Í Danmörku geta sveitarfélög og stofnanir sótt um fjármagn til þess að innleiða þessa fræðslu.

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna segir verkefnið hafa fengið styrki bæði frá Heilbrigðisráðuneytinu og Félagsmálaráðuneytinu. Rétt fyrir jól hafi Félagsmálaráðuneytið veitt þeim styrk upp á 6,5 milljónir. Því hafi verið hægt að setja aukinn kraft í verkefnið og vinna það hraðar en ella. Hún segir kostnað mestmegnis vinnuframlag en svo fylgi ýmislegt eins og kennsluefni.