Auka opinbera fjárfestingu vegna veirunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að öflugur gjaldeyrisvaraforði, lágt skuldahlutfall, hagkvæm vaxtakjör og jákvæður viðskiptajöfnuður geri það að verkum að efnahagskerfið sé vel undir það búið að takast á við möguleg áhrif af völdum COVID-19 veirunnar. Til standi að auka opinbera fjárfestingu vegna stöðunnar.

„Ríkisstjórnin var auðvitað þegar farin að undirbúa aðgerðir vegna kólnunar í hagkerfinu,“ segir Katrín. „Og það má segja að þessi veira setji þær aðgerðir í nýtt samhengi. Við erum að sjá að allar þjóðir standa frammi fyrir mjög miklum áhrifum af völdum veirunnar. Þannig að það sem við erum að undirbúa núna er annars vegar aðgerðir í ríkisfjármálum og hins vegar aðgerðir hvað varðar peningastefnu og efnahagsmál. Við áttum fund með Seðlabankanum í síðustu viku og munum eiga annan slíkan fund á næstu dögum. Þannig að það eru allir að vinna hörðum höndum að undirbúa það hvernig við getum tekist á við þessa stöðu. Ég tel að við séum mjög vel í stakk búin, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall, hagkvæm vaxtakjör og jákvæðan viðskiptajöfnuð. Þannig að það er ýmislegt sem leggst með okkur í því að takast á við það sem er framundan.“

Sem minnst áhrif

En hvað getið þið gert?

„Við getum í fyrsta lagi aukið við opinbera fjárfestingu. Það skiptir máli þegar við erum að sjá atvinnuleysi fara upp. Og það skiptir máli að ríkisfjármálunum sé beitt til þess að sporna gegn slíkum slaka. Og síðan er auðvitað hægt að bæta við hinum hefðbundnu verkfærum peningastefnunnar sem eru á hendi Seðlabankans.“

En kemur sem sagt til greina að auka opinbera fjárfestingu vegna þessarar veiru?

„Ríkisstjórnin hefur auðvitað þegar aukið opinbera fjárfestingu. En við erum meðvituð um að þær aðgerðir geta skipt máli þannig að við munum gera það sem þarf til þess að áhrifin á efnahagslífið verði sem minnst.“

Þar á meðal að auka opinbera fjárfestingu?

„Þar á meðal að auka opinbera fjárfestingu,“ segir Katrín.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi