Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Auglýsa eftir störfum fyrir flóttafólk

17.11.2015 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vinnumálastofnun auglýsir eftir starfstækifærum fyrir flóttamenn. Forstjórinn segir að færni fólksins og menntun verði metin, svo finna megi störf við hæfi.

 

Fyrst um sinn er leitað eftir að áhugasöm fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði hafi samband. Þau geti gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa flóttafólki tækifæri í nýju landi. 

„Ég held að það sem þarf að gerast er að við þurfum að eiga samtöl við fólkið og greina, bæði færni fólks og menntun. Reyna svo að leita að störfum sem að eru í einhverju samræmi við það. Þannig verður auðvitað fólkið ánægðast og það kemur mest út úr vinnunni“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hann segir að það geti þó reynst snúið að finna slík störf.

„Hins vegar hefur það verið þannig að þessir einstaklingar hafa verið að fá störf sem eru ekkert endilega í beinu samhengi við þeirra menntun. Þetta auðvitað byggist heilmikið á því að fólk nái tökum á málinu, það skiptir máli. Svo getur menntunin verið bundin við einhverjar tilteknar aðstæður, sem er ekki auðvelt að tengja saman þegar menn eru komnir langt að og inn í allt öðru vísi samfélag,“ segir Gissur.

Gefa fólkinu tíma
Huga þarf að mörgu þegar fólkið kemur til landsins, meðal annars að gefa því svigrúm til að átta sig á nýjum aðstæðum.

 

 

„Það er tvímælalaust gott ef að þetta er hugsað svona í heildarsamhengi, þannig að þegar og ef fólk telur sig tilbúið til að fara að vinna og sjá fyrir sér, að þá sé vinnu að finna. Það er markmið okkar að reyna að hafa hana tilbúna og jafnvel að semja við fyrirtæki, eða stofnanir um stuðning inni á vinnustöðunum. Fólk þarf auðvitað að hafa tíma til að læra málið og fleira í þeim dúr,“ segir Gissur.