Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Atvinnumenn þroskast ekkert“

Mynd: RÚV / RÚV

„Atvinnumenn þroskast ekkert“

18.09.2015 - 18:09
„Það er mikill munur á því að bíða eftir klósettpappír í röð í Rússlandi og að leika sér úti á kvöldin á Íslandi.“ Þetta segir Pavel Ermolinskij, einn fremsti körfuboltamaður landsins, sem fluttist fjögurra ára til Íslands með fjölskyldu sinni.

Í dag spilar hann með KR ásamt því að selja miðborgarbúum góðgæti í versluninni Kjöt og fiskur sem hann rekur í Bergstaðastræti í miðborg Reykjavíkur.

Pabbi Pavels, Alexander Ermolinskij, var einn fremsti körfuboltaleikmaður Rússlands en fjölskyldan fluttist búferlum til Íslands árið 1991. Alexander lék með Skallagrími og varð fljótlega einn besti körfuknattleiksmaður landsins. „Pabbi var stjarna í Rússlandi og eiginlega allt of góður fyrir íslenskan körfubolta,“ segir Pavel. Hann segir að körfuboltahæfileikar föður síns hafi verið farartæki fjölskyldunnar. Foreldrar hans yfirgáfu Rússlands með hag Pavels og bróður hans í huga, vildu búa þeim betra líf hérlendis. „Þau vildu að við hefðum möguleika á einhverju skemmtilegu.“

Atvinnumennskan djúp laug

Pavel ólst upp í Borgarnesi og fór fljótlega að æfa körfubolta, sem var aðalíþróttin í bænum. „Það vildu allir allt fyrir okkur gera. Ég var sonur aðalstjörnunnar og aðalkallinn þarna,“ segir hann í gríni. Pavel fór 18 ára gamall í atvinnumennsku á Spáni og var þar í sex ár. „Það var mikil reynsla, upp og niður eins og hægt er að ímynda sér. Þetta er djúp laug sem þér er hent út í. Annað hvort kanntu að synda eða ekki.“ 

Þroskast ekkert sem einstaklingar

Hann segir atvinnumenn í íþróttum þroskast á sérstakan hátt. „Atvinnumenn í körfubolta þroskast ekki neitt sem einstaklingar, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af neinu,“ segir hann. Það er séð um allt fyrir leikmennina; dagskrá, máltíðir og ferðir á milli leikja og móta. Hins vegar þroskist leikmennirnir á annan hátt, spili fyrir framan þúsundir manna við mikla pressu. 

Ísland eins og hverfi í New York

Pavel hefur talað um íslenska hrokann og mikilvægi hans. „Það er enginn hérna sem áttar sig á því, virðist vera, að þetta er 300 þúsund manna eyja. Við eigum ekkert að vera á stórmótum í fótbolta eða körfubolta og eigum ekkert að vera með toppíþróttamenn í öllum greinum,“ segir hann um leið og hann líkir Íslandi við lítið hverfi í New York. „Þetta er frábært en ekkert eðlilegt sem slíkt,“ segir Pavel sem vill þó meina að hroki, sem líka er hægt að kalla sjálfstraust, sé mikilvægur til þess að komast áfram í lífinu.