Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atvinnulífið fagnar en verkalýðshreyfingin vill meira

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fulltrúar atvinnulífsins eru mun jákvæðari í garð efnahagsaðgerða stjórnvalda en verkalýðshreyfingin sem segir skorta á aðgerðir fyrir heimilin. Framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar segir aðgerðirnar skýrar og afgerandi.

„Fyrstu viðbrögð okkar eru náttúrlega gríðarleg vonbrigði hvernig heimilin eru algerlega undanskilin þessum svakalega aðgerðapakka sem ríkisstjórnin hefur boðað,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en ríkisstjórnin kynnti í gær efnahagsaðgerðir sem metnar eru á rúmlega 230 milljarða.

Nefnir hann sérstaklega frumvarp félagsmálaráðherra um greiðslu atvinnuleysisbóta um skert starfshlutfall. Þar eru laun upp að 400 þúsund krónum að fullu tryggð en Ragnar segir það viðmið of lágt. Þá vill Ragnar sjá tafarlausa fyrstingu á vísitölu verðtryggðra lána. „Okkur þykir orðið ljóst að það eigi að fleyta krónunni og leyfa genginu að síga.“

Með lækkun bankaskatts mun verkalýðshreyfingin gera þá kröfu að bankarnir lækki vexti á þeim útlánum sem þeir eru með nú þegar. Varðandi opinberar framkvæmdir hefði Ragnar viljað sjá meiri áherslu á uppbyggingu almenna íbúðakerfisins. „Við viljum auðvitað verja störfin en það þarf að koma meira til en bara vegaframkvæmdir.“

Skýrar og afgerandi aðgerðir

Annað hljóð er í talmsönnum atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa fagnað útspili stjórnvalda og það gerir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar líka. „Það er ákaflega mikilvægt að fá svona skýr og afgerandi viðbrögð frá stjórnvöldum til þess að fyrirtæki geti gert sér grein fyrir því hvað er framundan og skipulagt hvernig þau ætla að komast í gegnum þennan skafl. Þetta mun gera það líklegra að ferðaþjónustan verði tilbúin að taka frákastið þegar ferðaviljinn glæðist á ný hvenær sem það verður.“

Segir Jóhannes að fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu skipti frestun opinberra gjalda og úrræði um minnkun starfshlutfalls miklu máli enda útlit fyrir að þau verði tekjulaus næstu vikur eða mánuði. Jóhannes segir að þessi aðgerðapakki sé góður grunnur og þótt eitthvað standi út af þá hafi forystumenn ríkisstjórnarinnar ekki útilokað að til frekari aðgerða verði gripið seinna meir.

Hins vegar sé ljóst að þessar aðgerðir komi ekki til með að bjarga öllum. „Ég held að það sé of snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta mun hafa á greinina í heild. Ég held þó að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það er töluvert af fyrirtækjum sem mun eiga gríðarlega erfitt með að standa þetta tímabil af sér,“ segir Jóhannes.