Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum verulegt áhyggjuefni

Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.  Mynd:
Atvinnuleysi mælist nú það hæsta í fimm ár og er hlutfallslega lang mest á Suðurnesjum. Það, og atvinnuleysi útlendinga er verulegt áhyggjuefni, segir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar fyrir nóvember hefur atvinnuleysi aukist um þriðjung á þessu ári. Atvinnuleysi er nú 4,1% á landsvísu. Það er það hæsta sem hefur mælst síðan í apríl 2014, þegar það mældist það sama. 

Atvinnuleysi mælist mest á Suðurnesjum eða 8,4% og næst mest á höfuðborgarsvæðinu 4,2%. Þá eru 39% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá útlendingar. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir mikilvægt að grípa inn í þessa þróun.

„Þetta er verulegt áhyggjuefni þetta mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum núna og líka þetta háa hlutfall útlendinga og við erum virkilega að skoða þetta og hvað við getum gert til að stemma stigu þarna," segir Unnur.

Unnur telur ekki líkur á uppsögnum það sem eftir er af desember en atvinnuleysi haldi líklega áfram að aukast á næsta ári.

„Við teljum að botninum sé ekki náð, atvinnuleysi mun halda áfram aukast eftir áramót og svo þurfum við að sjá hvað þessi árstíðasveifla, hversu mikið gagn hún gerir, það eykst alltaf vinnuframboðið þegar ferðaþjónustan og byggingariðnaðurinn fer á fullt aftur," segir Unnur.

Þá kom það fram á vef Hagstofunnar að atvinnuleysi mældist 4,3% í nóvember. Misræmi er milli mælinga Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar, þar sem Vinnumálastofnun fer eftir fjölda skráðra á atvinnuleysisskrá en Hagstofan mælir með úthringingum.