Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áttuðu sig ekki á hættunni og kveiktu varðeld

16.06.2019 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Axel Kristinsson/Wikicommons
Gestir á tjaldsvæði í Skorradal kveiktu varðeld í gærkvöld. Miklir þurrkar hafa verið á þessum slóðum og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum. Þau sem kveiktu eldinn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir hættunni en aðrir gestir brugðust skjótt við og bentu þeim á hana. Einnig bárust fregnir af öðrum varðeldi í Skorradal, niðri við vatnið, en þar reyndist heitavatnslögn hafa farið í sundur.

Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu í Borgarbyggð, fór ásamt lögreglu í Skorradal í morgun til að kanna aðstæður og ræða við fólk. Þeirra á meðal var fólkið sem kveikti varðeldinn. Hann segir að ungmenni hafi verið á ferð og að þau hafi safnað spreki í hlóðir sem höfðu áður verið hlaðnar. Þau áttuðu sig ekki á hættunni fyrr en aðrir gestir bentu þeim á hana. 

Auk ábendingar um varðeld á tjaldsvæðinu fengu yfirvöld ábendingu um að varðeldur hefði verið kveiktur niðri við vatn. Athugun leiddi í ljós að svo var ekki, segir Þórður, heldur fór heitavatnslögn í sundur. Ályktun fólksins um varðeld var þó ekki alfarið úr lausu lofti því fólk hefur stundum kveikt varðeld niðri við vatnið.

Gríðarleg eldhætta er á Vesturlandi eftir langvinna þurrka undanfarið. Gróður er skrjáfaþurr og því hætt við að eldur breiðist hratt út ef hann kviknar. Stærstu gróðureldar á Íslandi urðu á Mýrum fyrir tæpum áratug en Þórður segir að slökkviliðsmenn á þessum slóðum hafi farið í nokkur stór útköll síðan vegna mikilla gróðurelda.