Áttu fund með sóttvarnalækni vegna Wuhan-kórónaveiru

31.01.2020 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins kom saman til fundar í morgun að beiðni sóttvarnalæknis. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að tilefni fundarins hafi verið samræming og skipulag viðbragða við Wuhan-kórónaveiru.

Sóttvarnalæknir hafi á fundinum farið yfir hlutverk höfuðborgarsvæðisins í viðbrögðum ef og þegar veiran kemur upp á Íslandi.  Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hafi komið saman eftir fundinn til að undirbúa samhæfingu viðbragða og átt fund með sóttvarnalækni. 

Sóttvarnalæknir og Embætti landlæknis hafa lýst yfir óvissustigi vegna kórónaveirunnar. Undirbúningur neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar miðar meðal annars að því að tryggja órofna þjónustu.  

Fyrr í dag átti almannavarnanefnd Austurlands einnig fund um kórónaveiruna sem kennd er við Wuhan-borg.  Á Austurlandi er gátt inni í landið á Seyðisfirði. Þangað kemur ferjan Norræna í hverri viku frá Danmörku með viðkomu í Færeyjum. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi