Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Átti að passa en endaði á sviði

Mynd: RÚV / RÚV

Átti að passa en endaði á sviði

02.08.2019 - 16:03

Höfundar

Þegar rithöfundurinn Auður Jónsdóttir var táningur fékk hún það verkefni að passa dóttur Röggu Gísla yfir verslunarmannahelgi. Einhvern veginn endaði hún í staðinn á sviði með Stuðmönnum.

Í kringum 1990 var stóðu Stuðmenn reglulega fyrir útihátíðum í Húnaveri yfir verslunarmannahelgina og var hátíðin ein sú fjölsóttasta þau árin. Af henni fór „óbeislað” orðspor - eitt árið var til að mynda tilkynnt að alls 5.000 smokkar hefðu þar selst yfir helgina - en það hljómar nú einmitt ansi vel beislað.

Rithöfundurinn og „stundum” blaðamaðurinn Auður Jónsdóttir fór á eina slíka hátíð. Þá var hún 17 ára gömul og var boðið að vera passa dóttur Ragnhildar Gísladóttur og Jakobs Frímanns Magnússonar á meðan á hátíðinni stóð.

„Ég man að ég fór á sólríkum morgni með Röggu í Húnaver,“ segir Auður. Kagginn var amerískur og hana minnir að hann hafi verið vínrauður. Skottið var fullt af hárkollum og búningum. 

„Ég man alltaf að þegar við vorum efst uppi, yfir Húnaveri (...) þá segir Ragga svona - ímyndaðu þér ef það kæmi bara risastór rass og settist hérna niður í dalinn. Og alltaf síðan þá þegar ég fer þessa leið sé ég þennan risastóra rass fyrir mér.“

Þegar í Húnaver var komið reyndist Auður ekkert sérlega góð barnapía. „Ég bara hitti vini mína og datt í það,“ segir Auður. Hún telur það þó ekki hafa komið að sök eftir allt saman, nóg hafi verið af hjálparhellum til að sinna barninu. Auður hafði enda fengið baksviðspassa og nýtti hann til hins ýtrasta.

„Ég er þarna eitthvað að væflast á bak við að stela brennivíni og tala við mann og annan, og svo man ég bara eftir því að hafa einhvern veginn álpast inn á sviðið,“ rifjar Auður upp. „ Og ég stend þarna, ofurdrukkin, allt í einu á sviði með Stuðmönnum sem eru bara í sveiflu og horfi á mannfjöldann fagna mér.“

Auður segir söguna af þessari eftirminnilegu verslunarmannahelgi í sérþætti af Gráum ketti, sunnudag verslunarmannahelgar kl. 15 á Rás 1 þar sem fleiri eftirminnilegum augnablikum á útihátíðum liðinna tíma verða gerð skil eins og kettinum einum er lagið.