Nú þegar götur borgarinnar tæmast, veitingahús og vinnustaðir þagna og borgin leggst í dvala á meðan þess er beðið að veiruógnin líði hjá, byrja landsmenn margir að ókyrrast. Ástandinu getur fylgt bæði kvíði og streita og er því mikilvægt að huga að andlegri heilsu með því að beina huganum frá því sem vekur ugg og að einhverju sem veitir vellíðan og frið.
Í spilara RÚV verður bráðlega boðið upp á fjórtán hugleiðslur frá Lótushúsi sem senda óstöðugan huga á öruggar slóðir sem veita innri frið. Með hverri hugleiðslu eru mismunandi áherslur svo hvort sem fólki líður best í blómlegri náttúrunni að róla sér, á bát og lygnu vatni eða leitar þess einfaldlega að finna ljósið innra með sér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hér á eftir eru sex þeirra en allar hugleiðslurnar verður hægt að nálgast í spilara RÚV. Lótushús býður einnig reglulega upp á beinar hugleiðsluútsendingar og halda úti appi sem hægt er að hlaða niður í snjalltæki og þar má finna fjölbreytta hugleiðslu.