Atli fær áheyrn Hæstaréttar í Spartakusarmáli

21.05.2019 - 16:44
Mynd með færslu
Atli Már Gylfason í héraðsdómi. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hæstiréttur samþykkti í dag taka fyrir mál Atla Más Gylfasonar, sem í Landsrétti var fundinn sekur um meiðyrði í garð Guðmundar Spartakusar Ómarssonar. Atli hafði skrifað grein í Stundina um fíkniefnasmygl í Suður-Ameríku og hvarf Friðriks Kristjánssonar þar. Í niðurstöðu Hæstaréttar í dag segir að dómur í málinu „myndi hafa almennt gildi um álitaefni varðandi heimildir fjölmiðla til að fjalla um rannsókn sakamála og byggja á frásögn ónafngreindra heimildarmanna“.

Í mars dæmdi Landsréttur Atla til að greiða Guðmundi Spartakusi 1,2 milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunarinnar. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður sýknað Atla í sama máli. Landsréttur taldi að með hluta umfjöllunar sinnar hefði Atli Már borið Guðmund sökum um alvarlegan og svívirðilegan glæp sem varði að lögum ævilöngu fangelsi. Ekkert lægi fyrir um að Guðmundur hefði verið kærður fyrir brotið, hvað þá að ákæra hefði verið gefin út og dómur fallið.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Guðmundur Spartakus í Héraðsdómi Reykjaness.

Atli Már sóttist eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar á þeirri forsendu að úrslit málsins vörðuðu sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans, „annars vegar vegna trúverðugleika hans sem blaðamanns og hins vegar vegna þeirrar fjárhagslegu byrði sem honum var gert að sæta með dómi Landsréttar,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar. Þá sagðist Atli telja að meðferð málsins fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant, vegna þess að aðalkrafa hans um frávísun málsins frá héraðsdómi hefði ekki verið tekin til greina, og að dómurinn væri bersýnilega rangur.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi