Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atkvæðagreiðslu frestað eftir mótmæli 340 kúabænda

20.11.2019 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Atkvæðagreiðslu um samkomulag Bændasamtaka Íslands og ríkisins um endurskoðun gildandi búvörusamninga í mjólkurframleiðslu, var í morgun frestað um eina viku. Ákveðið var að fresta atkvæðagreiðslunni eftir að 340 kúabændur skrifuðu undir mótmæli gegn samningnum.

Í áskorun hópsins sem afhent var formanni Bændasamtakanna í gær segir að algjör óvissa ríki um veigamikil grundvallaratriði á borð við verðlagningu mjólkur og fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta.

Ánægður með Bændasamtökin

Þröstur Aðalbjarnarson, bóndi á Stakkhamri er einn þeirra sem stóð að söfnun undirskrifta. Hann þakkar Bændasamtökunum fyrir að hlusta á grasrótina.

  „Við þessa endurskoðun á búvörusamningnum núna þá voru sett fram ýmis atriði sem við hnutum við að væru ekki að gagna upp. Meðal annars það að ríkið setti þá kröfu að það væri frjáls markaður á greiðslumarki eða kvóta sem hefði leitt til þess að kvótaverð hefði hugsanlega hækkað verulega með kostnaðarauka fyrir okkur bændur. Okkur finnst að það hafi verið svolítið kastað til höndum í þessari vinnu. Ég veit að nú hafa aðilar sest niður aftur og eru að ræða málin aftur sem er vel. Við þökkum fyrir þau viðbrögð sem Bændasamtökin sýndu þessu og það sýnir það að Bændasamtökin eru að hlusta á grasrótina sem er mjög vel."

Atkvæðagreiðsla færist um viku

Atkvæðagreiðslan átti hún að hefjast í hádeginu í dag. Af því varð ekki og mun atkvæðagreiðslan færast til hádegis 27. nóvember og standa til 4. desember.