Átakamikil klassík

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Átakamikil klassík

25.11.2019 - 19:50

Höfundar

„Hilmi Snæ Guðnasyni og Nínu Dögg Filippusdóttur tekst nánast hnökralaust að veita áhorfendum hlutdeild í líðan og upplifun persónanna án þess að stytta sér leið, undir styrkri leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur,“ segir í gagnrýni Karls Ágústs Þorbergssonar um leikritið Eitur sem nú er sýnt á Litla sviði Borgarleikhússins. Leikurinn er afar raunsær og lágstemmdur

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Leikritið Eitur eftir hollenska leikskáldið Lot Vekemans var frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins fyrir rúmri viku. Verkið fjallar um fyrrverandi hjón á fimmtugsaldri sem hittast aftur eftir 10 ára aðskilnað í skrifstofuhúsnæði kirkjugarðs til þess að ræða mögulega færslu á leiði sonar þeirra. Stærra drama er varla hægt að finna, sorlegt andlát barns, aðskilnaður og 10 ára þögn í kjölfarið. Þó svo að verkið hverfist fyrst og fremst um samskipti, átök og uppgjör persónanna tekst aðstandendum einnig að vísa út fyrir það, í víðara samfélagslegra samhengi og ólík viðbrögð og upplifanir okkar á áföllum.

Persónur verksins eru aðeins tvær, hann og hún, og eru þær eins konar tákmyndir ólíkra leiða til að takast á við áföll. Hann yfirgaf hana í leit að lausn sem hann virðist hafa fundið, í faðmi annarrar konu í Normandí í Frakklandi og með því að skrifa skáldsögu um reynslu sína og tilfinningar. Hún situr eftir í gamla lífinu og virðist föst í harminum, nánast eins og hún vilji dvelja þar að eilífu. Hann talar um að setja punkt og halda áfram á meðan hún sakar hann um að vilja gleyma fortíðinni eða láta eins og hún tilheyri honum ekki lengur. Í upphafi verksins stillir Lot Vekemans upp þessum erkitýpum mjög meðvitað, nánast sem ímynd hins kvenlega og karllæga sjónarhorns, en þegar líður á verkið verða fletir tilfinninga þeirra og upplifana fleiri og flóknari, enda viðbrögð fólks við áföllum yfirleitt marglaga og órökrétt. Þættir verksins ganga þar af leiðandi út á að dýpka skilning áhorfenda á samskiptum persónanna og lokka þá inn í tilfinningaheim þeirra í stað þess að stylla þeim upp andspænis dramanu sjálfu.

Á yfirborðinu virkar Eitur sem einstaklega einfalt og klassískt leikrit; bygging verksins er hefðbundin í alla staði, frásögnin er skýr og aðstæðurnar sömuleiðis, vandamálið einfalt en um leið stórkostlega dramatískt og óleysanlegt, persónurnar tvær mynda skýrar andstæður hvor við aðra og virka kunnulegar á áhorfendur o.s.frv. Markmiðið með þessum einfaldleika er að sama skapi skýrt, öll athyglin er hér sett á samskipti persónanna og virka aðstæður verksins og bygging þess sem eins konar rammi utan um þau. Að því sögðu er verkið allt annað en einfalt. Samspil þessa skýra ramma, hins stórkostlega drama sem drífur söguna áfram og nálægðarinnar við áhorfendur gerir það að mjög flóknu viðfangsefni fyrir leikara. Hættan er sú að dramað taki yfir og persónurnar, með öllum sínum flóknu tilfinningum og innri átökum, nái ekki í gegn, falli hreinlega í skuggann af dramatíkinni og halda áhorfendum þar með fyrir utan þessi átök. Verkið lifnar því við með leiknum. Það er því kannski ekki að undra að Hilmir Snær Guðnason og Nína Dögg Filippusdóttir fari með hlutverk hans og hennar í verkinu. Þau hafa bæði sýnt og sannað að þau geta tekist á við flókin dramatísk hlutverk og undir styrkri leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur tekst þeim nánast hnökralaust að veita áhorfendum hlutdeild í líðan og upplifun persónanna án þess að stytta sér leið að tilfinningum þeirra með því að sökkva þeim í dramatík frásagnarinnar.

Mikil nánd

Öll sviðsetning verksins lítur skýru lögmáli. Markmiðið er að sýna órökrænan tilfinningaheim í kjölfar áfalls, átakamikil samskipti eftir langa og erfiða þögn og uppgjör við harmræna fortíð í gegnum samskipti persónanna og leik leikaranna. Leikstjórn Kristínar byggist því á að búa til tiltölulega hlutlausa umgjörð þar sem þessi leikur fær að vera marglaga og táknrænn, skapa aðstæður sem styðja við samskiptin í stað þess endilega að bæta einhverju nýju við. Leikurinn er afar raunsær og lágstemmdur og kallast vel á við þá miklu nánd sem ríkir milli leikara og áhorfenda. Leikmyndin er tiltölulega hrá og um leið steríl, gæti vel verið nýtísku kapella í kirkjugarði eða ný viðbót við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Auðvelt er að lesa rýmið sem hlutlaust en einnig eilítið þvingað, hér á að vera hægt að finna ró sem mun þó líklega aldrei gerast, sama hversu lengi maður horfir á japanska zen-garðinn í glugganum. Staðsetningar persónanna í þessu rými skipta máli. Þau halda yfirleitt hæfilegri fjarlægð, hætta sér ekki of nærri hvor annarri nema þegar gerð er árás, hrökkva svo til baka. Hann tekur sér oft stöðu í miðju rýminu, yfirvegaður að því er virðist. Búinn að finna ákveðna lausn þó alltaf sé stutt í sorgina. Hún heldur sig til hlés upp við veggi og gengur meðfram sviðsbrúninni til að undirstrika vanlíðan sína. Tónlistin styður að sama skapi við samskiptin, hún er lágstemmd og ýtir undir þær tilfinningar sem þar koma fram en tekur aldrei fram úr þeim.

Uppbrot í þriðja þætti

Eins og fyrr segir er verkinu skipt upp í þrjá þætti sem hver um sig hefur ákveðna áferð. Eins og gefur að skilja byrjar fyrsti þáttur rólega en fljótt æsast leikar og dramatíkin springur út í örðum þætti. Þriðji þáttur er hins vegar með allt annarri áferð og skýrist það að miklu leyti af ákveðnum breytingum í sögunni sem óþarfi er að fara í hér til að spilla ekki fyrir þeim sem eftir eiga að sjá. Þriðji þátturinn er mun lágstemmdari, þar ræður ríkjum einhvers konar leit að sátt, bæði milli persónanna og gagnvart fortíðinni. Samskipti persónanna detta því í annan gír og takturinn verður allt annar. Eftir allt sem á undan hefur gengið væri því auðvelt að missa takið á verkinu í þessum þætti. Nínu og Hilmi tekst vel upp með að höndla þær miklu tilfinningar sem birtast í fyrstu tveimur þáttunum og ná einnig að fylgja þeim nýja takti sem tekur við í þriðja þætti þó svo að það er sýnilegra að þau þurfa að leggja meira á sig. En það er kannski ekki beint við þau að sakast þar sem leikritið missir eilítið fótana í þessum þætti. Það skal einnig viðurkennast að það er ekki hlaupið að því að loka eins dramatísku verkin og hér er á ferð á góðan hátt. Aðstandendur komast þó ágætlega frá því en það mætti spyrja sig hvort notkun táknmálsins í lokin hafi verið of afgerandi og skilyrt upplifun áhorfenda aðeins um of.

Kjarnast kringum samskipti

Það hefði verið mjög auðvelt fyrir aðstandendur verksins að einblína á þá miklu sorg sem felst í barnamissinum en þá hefðu þau að sama skapi verið að stytta sér leið að tilfinningalegri samlíðan áhorfenda. Andlát barns hreyfir við jafnvel hörðustu sálum. Að sama skapi hefði það lokað verkið inni í sviðsetningunni og áhorfendur flestir skilið samlíðan sína eftir á Litla sviðinu. Með því að hins vegar kjarna verkið í kringum samskiptin og þann tilfinningalega harm sem í þeim birtist á þann hátt eins og gert er í sviðsetningunni, er verið að beina athyglinni frá sjálfu áfallinu og færa hana yfir á viðbrögð fólks við því. Þar af leiðandi tekst að stækka heim verksins og athyglin beinist að órökréttum viðbrögðum okkar við hvers kyns áföllum, tilfinningunum við bærast innra með okkur og hvernig við tökust á við áföll á ólíkan hátt. Það er því leikhópnum til hróss að ná að halda sig við þá leið því þó hún sé töluvert flóknari og vandmeðfarin þá skilar hún sér einfaldlega í miklu betri og áhrifameiri sýningu.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Velheppnaður hollenskur harmleikur