Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ástþór hefur kært framkvæmd kosninganna

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi kærði framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu forsetakosninganna til Hæstaréttar á föstudaginn. Ástþór segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ásamt öðrum lagt fram kæru sem var nokkuð samhljóða þeirri sem Bjarni Bergmann, Þórólfur Dagsson og Björn Leví Gunnarsson lögðu fram þann 2. júní síðastliðinn.

Þeirri kæru var vísað frá en Ástþór segir að það hafi verið vegna formgalla sem hafi verið lagfærður. Kærendur bæði nú og áður telja að atkvæði sem greidd voru áður en frambjóðendur skiluðu inn löglegu umboði með að lágmarki 1.500 undirskriftum, geti ekki talist lögleg.

Vísir greindi frá því í gær að Hæstiréttur hefði vísað í ákvæði laga um framboð og kjör forseta Íslands þar sem ekki væri að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir um undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Hæstiréttur geti ekki fjallað um gildi forsetakjörs fyrr en því sé lokið. Sömuleiðis var bent á að ekki væri heimild fyrir því að ógilda tilteknar ákvarðanir í tengslum við forsetakjör. Nauðsynlegt væri að kæra kosningarnar í heild sinni.

„Ég hef ítrekað gert athugasemdir við innanríkisráðuneytið, kjörstjórnir, Hæstarétt og ÖSE við undirbúning og framkvæmd kosninga árin 2004, 2009, 2012 og nú 2016.  Mörgum atriðum hefur verið ábótavant. Kvartanir mínar leiddu til ábendinga frá ÖSE m.a. hvað varðar fjölmiðla og að utankjörfundaratkvæðagreiðsla eigi ekki að hefjast fyrr en búið er að votta framboðin.

Í kosningunum núna voru komnar tvær úrbætur á atriðum sem ég gerði athugasemdir við. Opnuð var netgátt hjá Þjóðskrá fyrir framboðin að kanna gildi meðmælenda á listum. Þá fengu frambjóðendur nú í fyrsta sinn að senda stutt kynningarmyndband til birtingar hjá RÚV,“ segir Ástþór.

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV