Ástleitin skjaldbaka bjargar eigin tegund frá útdauða

11.01.2020 - 10:16
epa08118190 Handout picture provided by the Galapagos National Park that shows Diego, the giant tortoise of the Espanola Island that lived in USA and that after returning to the archipelago helped to save its species by procreating 800 turtles, in Galapagos, Ecuador, 09 January 2020 (Issued 10 January 2020). Diego, the giant tortoise of the Espanola Island that lived in USA will return to its habitat this year, where pirates decimated the population of these animals several decades ago. Its return, planned for next March, derives from the closure of the captive breeding program of the Chelonoidis hoodensis species, once the recovery of habitat and turtle population conditions in Espanola Island has been verified.  EPA-EFE/Galapagos National Park HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE
Talið er að risaskjaldbaka frá einni af Galapagos-eyjunum hafi átt stóran þátt í því að bjarga tegund sinni frá útdauða. Vísindamenn segja að það megi þakka hinni miklu kynhvöt risaskjaldbökunnar. Skjaldbakan fær nú að snúa aftur til síns heima eftir að hafa eytt síðustu áratugum í ræktunarverkefni þjóðgarðs eyjanna sem miðaði að því að bjarga tegundinni frá útdauða.

Risaskjaldbakan Diego var eitt 14 karldýra sem flutt voru á brott af eyjunni Espanjólu fyrir 80 árum síðan í þeirri von að hægt væri að sporna gegn útdauða skjaldbökutegundarinnar og fá dýrin til þess að fjölga sér. Fyrir hálfri öld taldi risaskjaldbökutegundin Chelonoidis hoodensis á eyjunni Espanjólu einungis á annan tug einstaklinga. 

Diego er um 100 ára gamall og hann hefur ekki setið aðgerðalaus undanfarna áratugi. Nú telur stofninn um 2000 einstaklinga og talið er að Diego hafi feðrað tæplega helming þeirra eða um 800 einstaklinga. Nú er ræktunarverkefninu lokið með góðum árangri, Diego verður fluttur aftur á heimaslóðirnar og fær að setjast í helgan stein.

Árið 2017 tilkynntu yfirvöld í þjóðgarðinum á Galapagos-eyjum að þau hygðust hefja ræktun á risaskjaldbökutegund sem talið er að hafa dáið út fyrir um 150 árum síðan eftir að skjaldbökutegund með svipað erfðamengi fannst. Töldu vísindamenn líklegt að hægt væri að nýta þá skjaldbökutegund til endurvekja hina útdauðu tegund sem útrýmt var vegna offveiði á sínum tíma.

Galapagoseyjar eru staðsettar rúmlega 900 km vestur af Ekvador og eru þekktar fyrir einstakt plöntu- og dýralíf. Eyjarnar eru meðal annars á heimsminjaskrá UNESCO en þær dýrategundir sem finnast á eyjunni, þar á meðal skjaldbökur, höfðu mikil áhrif á rannsóknir Charles Darwin og þróunarkenningu hans. 

Mynd með færslu
 Mynd: Google maps - Skjáskot af Google maps
Eyjan Espanjóla er staðsett þar sem rauði punkturinn er
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi