Það er búið að vera dásamlegt að fylgjast með Kælunni miklu og sigrum hennar, en þær stöllur hafa haft mikið umleikis undanfarin misseri. Þær eru meira að segja farnar að gægjast aðeins upp úr moldinni, en síðasta plata, Nótt eftir nótt, vakti verðskuldaða athygli á þeim. Þar taka þær sitt gotaskotna popp upp á næsta stig, lög og flutningur er allur straumlínulagaðri án þess að einhverju biti eða köntum sé fórnað. Frábær hljómsveit og spennandi að sjá hverju þær snara upp næst.