Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ástarjátning Kobe Bryants til körfuboltans

epa08169311 (FILE) - Los Angeles Lakers player Kobe Bryant walks down court during an NBA basketball game between the Los Angeles Lakers and the Oklahoma City Thunder at the Chesapeake Energy Arena in Oklahoma City, Oklahoma, USA, 11 April 2016 (re-issued 27 January 2020). Kobe Bryant died in a helicopter crash in Calabasas, California, USA on 26 January 2020.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ástarjátning Kobe Bryants til körfuboltans

27.01.2020 - 12:32
Kobe Bryant, sem lést á sunnudag í þyrluslysi ásamt 13 ára dóttur sinni og sjö öðrum, kvaddi íþróttina sem hann hafði sett mark sitt svo mjög á með eftirminnilegum hætti þegar hann ákvað að setja skóna á hilluna.

Þegar körfuknattleiksmaðurinn Kobe Bryant kvaddi íþróttina sem hann elskaði samdi hann ljóð. Ljóðið birti hann á íþróttavefnum Players Tribune.  Það hét Kæri körfubolti, og var í senn ástarjátning til íþróttarinnar og tilkynning um að hann hygðist hætta að loknu tímabilinu 2015-2016 í NBA-deildinni.

Ljóðið varð síðan efniviður í samnefnda Óskarsverðlaunateiknimynd. Myndina gerði Bryant með Disney-teiknaranum Glen Keane og tónlistin var eftir John Williams. 

Kobe Bryant með Óskarinn fyrir teiknimyndina Dear Basketball.
 Mynd: EPA
Kobe Bryant og Glen Keane kampakátir með Óskarsstyttur í höndum.

Keane lýsir því í viðtali við New York Times hvernig hann og Bryant tengdust vinaböndum í gegnum sameiginlega ást á tónlist Beethovens. Keane hafði stuðst við níundu sinfóníu tónskáldsins þegar hann teiknaði Dýrið í Disneymyndinni Fríða og Dýrið og varð furðu lostinn þegar Bryant sagði honum frá því að hann hefði sjálfur byggt framgöngu sína og leikáætlun í úrslitaleik í NBA-deildinni á hrynfalli fimmtu sinfóníu Beethovens. „Sérhver leikur hefur ákveðna samsetningu,“ útskýrði Bryant, „líkt og tónverk býr yfir uppbyggingu og skriðþunga. Þú verður að vera meðvitaður um hvernig skriðþunginn byggist upp til að geta beint honum annað eða breytt honum.“

„Hjarta mitt þolir höggin, hugur minn stritið“

Fjallað var um ljóð Kobe Bryants í Síðdegisútvarpinu skömmu eftir að það var birt. Eiríkur Guðmundsson, umsjónarmaður Víðsjár á Rás 1, las ljóðið upp í þýðingu Bergsteins Sigurðssonar og Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur dagskrárgerðarfólks.

Mynd: EPA-EFE / EPA
Upplestur Eiríks Guðmundssonar á Kæri körfubolti.

Ljóðið hefst á fallegri bernskumynd, þar sem hann rúllar upp sokkum föður síns og ímyndar sér að hann hitti úr sigurskotum. „Hann er greinilega ástríðumaður gagnvart körfubolta. Það fer ekkert á milli mála,“ segir Eiríkur Guðmundsson. „Hann er að tala við lífsförunaut sem hann er í rauninni að kveðja.“

Kæri körfubolti
Frá augnablikinu
sem ég byrjaði að rúlla upp sokkunum hans pabba
og hitta úr ímynduðum sigurskotum
í Great Western Forum höllinni
vissi ég eitt fyrir satt

Ég var ástfanginn af þér

Sú ást var svo djúp að ég gaf þér allt –
huga minn og líkama
anda og sál

Sem sex ára drengur
heltekinn af ást
sá ég aldrei enda ganganna
ég sá aðeins sjálfan mig
koma hlaupandi út úr þeim

Svo ég hljóp
upp og niður alla velli
og kastaði mér eftir hverjum lausum bolta fyrir þig
þú baðst mig um ákefð mína
ég gaf þér hjarta mitt
því umbunin var svo mikil

Ég lék gegnum svita og sár
ekki af því að keppnin kallaði
heldur vegna þess að ÞÚ kallaðir
ég gerði allt fyrir ÞIG
því það er það sem maður gerir
þegar einhver fyllir mann jafn miklu fjöri
og þú hefur gert

Þú uppfylltir Lakers-draum sex ára drengs
og fyrir það mun ég ávallt unna þér
en ég ekki lengur látið ást mína til þín heltaka mig
þessi leiktíð er allt sem ég á eftir
hjarta mitt þolir höggin
hugur minn stritið
en líkami minn veit að kveðjustundin er runnin upp

Og það er í allt í lagi
ég er tilbúinn að sleppa af þér takinu
ég vil að þú vitir það núna
svo við getum notið hvers andartaks sem við eigum eftir saman
hins slæma og góða
sem við höfum gefið hvor öðrum
alls sem við eigum

Og við vitum báðir að það skiptir engu máli hvað tekur við
ég verð alltaf drengurinn sem rúllaði upp sokkunum
ruslatunnan í horninu
fimm sekúndur á klukkunni
boltinn í höndum mínum
5...4...3...2...1

Elska þig að eilífu,

 Kobe

Kobe Bryant lést langt fyrir aldur fram í þyrluslysi í Kaliforníu sunnudaginn 26. janúar. Hann var aðeins 41 árs. Þrettán ára dóttir hans, Gianna, var einnig í þyrlunni. Allir um borð í þyrlunni fórust í slysinu, flugmaðurinn og átta farþegar.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Margir sem minnast Kobe Bryant

Körfubolti

Margir sem minnast Kobe Bryant

Íþróttir

Kobe Bryant lést í þyrluslysi

Bókmenntir

„Kobe Bryant er módernisti“