Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ástandið í Nýja Suður-Wales eins og í hryllingsmynd

Sólveig Einarsdóttir, íbúi í Narrabri í fylkinu Nýja Suður-Wales í Ástralíu. - Mynd: Þórunn Elísabet Bogadóttir / RÚV
Ástandinu í Nýja Suður-Wales í Ástralíu er helst hægt að líkja við stríðsástand, segir Sólveig Einarsdóttir, sem búið hefur í bænum Narrabri í fylkinu í þrjátíu ár. Ekkert lát er á gróðureldum, bændur bregða búi og fólk er tilbúið að flýja heimili sín á hverri stundu.

„Heima hjá mér þar sem ég bý, í Narrabri, það er bara skelfilegt. Það er eins og að vera í hryllingsmynd. Það var eins og að leika í hryllingsmynd þegar ég fór,“ sagði Sólveig í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún er stödd á Íslandi þessa dagana en býr á bæ í Narrabri með áströlskum eiginmanni sínum. „Það er þessi þurrkur sem hefur geisað svo lengi og er búinn að há okkur síðastliðin tvö ár, að það hefur ekki rignt. Meðalúrkoma á ári er 600 millimetrar en 2019 þá fengum við 164 millimetra, sem er ekki nema 27 prósent af meðalúrkomunni.“ Árið 2018 var úrkoman 300 millimetrar. 

Ástandið háir bændum mjög því enga beit er að hafa fyrir skepnur. „Það er allt tómt, ekkert nema sandur,“ segir Sólveig og lýsir því hvernig miklir stormar geisuðu fyrra. Moldviðrið var þvílíkt að hún hefur aldrei séð annað eins. Efsta jarðlagið fauk í burtu. „Allir bændur fækkuðu við sig nautgripum og öðru og núna hækkar verð á heyi á hverjum degi.“ Verðið núna er 600 ástralskir dollarar fyrir eina heyrúllu. 

„Bændur að flosna upp það eru sjálfsvíg. Þeir eru búnir að þrauka og þrauka og bíða eftir þessu regni. En nú þurfum við bara svo mikið regn. Við þurfum samfellt regn í marga daga. Við þurfum flóð.“ Sólveig bendir á að tré og plöntur drepist við þessar aðstæður. „Það er allt í hástressi, þetta er skelfilegt. Ég get ekki lýst þessu öðruvísi en sem hryllingsmynd, þetta er óhugnanlegt.“

epaselect epa08000933 New South Wales (NSW) Rural Fire Service firefighters work to contain a bushfire that spread from the Gospers Mountain fire, in Colo Heights, New South Wales, Australia, 16 November 2019. The Gospers Mountain fire has been downgraded from Emergency Warning level to Watch and Act as fire activity has eased around Colo Heights.  EPA-EFE/JEREMY PIPER AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP

Hluti eldanna hefur kviknað af mannavöldum, til dæmis þegar fólk hefur hent sígarettustubbum í gróður og hafa verið gefnar úr ákærur fyrir slíkt gáleysi. Hún segir að þeir kvikni helst vegna þrumuveðurs með eldingum. 

Heimili Sólveigar og eiginmanns hennar stendur enn. Í nálægum þjóðgarði loga miklir eldar sem enginn fær ráðið við. Hún segir að fólk sé tilbúið að yfirgefa heimili sín á hverri stundu og sé búið að pakka vegabréfum, tryggingapappírum, myndaalbúmum og slíku. „Þetta er nánast eins og stríðsástand,“ segir hún.