Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ástandið eins og var fyrir tíma malbiks

25.11.2019 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Íbúar á Akureyri héldu um helgina fund um aðgerðir bæjarins til að sporna við svifryksmengun. Þeir vilja að leitað sé annarra lausna en að bera salt á göturnar.

Saltblandaður sjór hefur verið borinn á götur Akureyrarbæjar undanfarið til rykbindingar eins og áður hefur verið sagt frá. Aðferðin virðist virka og hefur loftið batnað en önnur vandamál hafa skapast í staðinn.

Til dæmis hafa bílar í bænum sjaldan verið skítugri og langar biðraðir myndast við þvottastöðvar. Mikillar óánægju hefur gætt meðal íbúa og boðuðu forsprakkar Facebook-hópsins „Ekkert salt á götur Akureyrar“ til borgarafundar um helgina. 

Segir ástandið hroðalegt

Jóhann Björgvinsson, framhaldsskólakennari og annar fundarstjóranna, segir þungt hljóð í bæjarbúum enda sé hroðalegt að fara um göturnar. Þær séu eitt drullusvað og segir hann fólk líkja þessu við ástandið sem var áður en götur voru malbikaðar. 

Þá sé sjórinn í sjálfu sér lifandi efni. Fullur af gerlum, sýklum og öðru sem sé óhollt að vera að dreifa um og óhreinindin berist inn á heimili, verslanir og sjúkrastofnanir. Þá lýstu íbúar yfir áhyggjum fyrir helgi um að sjórinn væri tekinn við frárennsli frá skólplögn bæjarins.

Jóhann segir mikilvægt að bregðast við svifryksmengun en ekki sé gott að leysa vandamál með því að skapa önnur. Leita þurfi annarra lausna og það strax. Til dæmis megi ryksuga götur og þvo þær með vatni eins og nágrannaþjóðir hafi gert með ágætum árangri.

Hugsa þurfi dæmið til enda

Þá segir hann saltnotkun aðeins auka vandamálið því það leysi upp fín efni í malbikinu sem auki svifryk. Þá þurfi líka að huga að því að svifryksmengun sé vandamál allan ársins hring á Akureyri.

„Og það náttúrulega yrði alveg hroðalegt ef bærinn héldi áfram að ausa sjó yfir göturnar og yfir sumarið yrði daunninn af þessu alveg óbærilegur“ segir Jóhann.

Halda áfram að nota sjó

Fulltrúar hópsins ætla að vinna áfram með þær tillögur sem fram komu á fundinum og leita lausna. Þá verði óskað eftir fundi með fulltrúum Akureyrabæjar. Spurður um viðbrögð frá Akureyrabæ segir Jóhann þau vera engin.

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, sagði í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir hádegi að saltblandað ferskvatn verði notað áfram, sé hætta á svifryki þar sem það hafi skilað miklum árangri. Götur hafi verið skítugar, þessvegna hafi íbúar fundið svona mikið fyrir aðgerðunum. Þær hafi verið þrifnar um helgina og ástandið sé því orðið betra núna.