Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ástandið á samningafundum óboðlegt

21.01.2020 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Formaður Eflingar segir að samninganefnd Eflingar mæti miklu virðingarleysi á samningafundum við Reykjavíkurborg og að stemningin sé fyrir neðan allar hellur. Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir Eflingar hefst í dag.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti borgarstjóra í gær að samningafundir Eflingar og borgarinnar myndu hér eftir fara fram fyrir opnum tjöldum, þar sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefði brotið lög með því að greina frá efni samningafunda og fótum troða þannig trúnað sem eigi að ríkja.

Hún segir samningaviðræður hafa staðið í 10 mánuði, þær gangi illa og samninganefnd Eflingar mæti virðingarleysi á samningafundum.

„Stemningin á þessum fundum, og það viðmót sem mætt hefur okkur, er að mínu mati og samninganefndarinnar, fyrir neðan allar hellur... Því miður, þá er það þannig að, þetta hefur ekki aðeins gengið illa, heldur hefur ástandið einhvern veginn á fundunum verið með þeim hætti að, ég mundi bara segja að það hafi oft á tíðum verið óboðlegt,“ sagði Sólveig Anna í Morgunútvarpi Rásar 2.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir Eflingar hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Verði verkfall samþykkt hefjast verkfallsaðgerðir 4. febrúar, þær muni hafa mikil áhrif. Þá muni til að mynda ófaglært starfsfólk leikskóla og fólkið sem hreinsar götur borgarinnar leggja niður störf.

„Ég meina hver hér í þessari borg, eða bara á þessu landi, getur ímyndað sér þetta samfélag án þess til dæmis að leikskólar séu opnir? Og hverjir vinna í þessum leikskólum, hverjir halda þeim gangandi? Það er félagsmenn mínir, fólkið í Eflingu, fólkið í þessari borg.“
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV