Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ástand tveggja piltanna alvarlegt

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Áfallateymi Hafnarfjarðarbæjar hefur verið virkjað vegna slyssins í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöld. Þrír piltar voru í bílnum sem fór í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði. Tveir þeirra voru fluttir á gjörgæsludeild Landspítalans og er ástand þeirra alvarlegt, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Þriðji pilturinn var lagður inn á aðra deild og er líðan hans eftir atvikum.

Neyðarlína fékk tilkynningu um málið klukkan 21:08 í gærkvöld og þá var ekki vitað hve margir voru í bílnum. Strax voru sendir af stað fimm sjúkrabílar, dælubíll og þriggja manna kafarasveit Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang 21:17. Þá var einn kominn út úr bílnum og var að koma sér upp á bryggjuna. Kafarasveit sótti þá tvo sem voru enn í bílnum og kom þeim í land. Klukkan 21:38 voru allir komnir í land, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Upptaka af slysinu náðist á eftirlitsmyndavélar

Samkvæmt heimildum fréttastofu náðist atvikið á upptöku á eftirlitsmyndavélum og hefur lögreglan þær upptökur til skoðunar. Talsverð hálka er á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í kringum hafnarsvæði eins og þetta.  Samkvæmt upplýsingum fréttastofu uppfyllir bryggjukanturinn á Óseyrarbryggju allar reglugerðir.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV

Áfallateymi virkjuð og bænastund haldin

Áfallateymi Rauða krossins hefur einnig verið virkjað vegna slyssins. Sjálfboðaliðar þess veita fólki, bæði aðstandendum og öðrum, sálrænan stuðning. Nánari upplýsingar er hægt að fá í Hjálparsíma Rauða krossins 1717. 

Bænastund verður í Hafnarfjarðarkirkju í dag og verður áfallateymi Rauða krossins þar. Kirkjan verður opnuð klukkan fjögur og bænastundin hefst klukkan fimm.