Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Astana heitir nú Nursultan

20.03.2019 - 12:05
Erlent · Asía · Kasakstan
Mynd með færslu
Frá Nursultan sem áður hét Astana. Mynd:
Höfuðborg Kasakstans heitir ekki lengur Astana heldur Nursultan. Þingið í Kasakstan samþykkti í morgun að höfuðborgin yrði nefnd eftir Nursultan Nazarbajev, sem lét af embætti forseta í gær.

Nazarbajev tilkynnti óvænt afsögn sína í gær, en hann hefur verið leiðtogi Kasakstans í þrjá áratugi, fyrst sem aðalritari Kommúnistaflokksins á meðan gömlu Sovétríkin voru og hétu, en síðar var hann kjörinn fyrsti forseti Kasakstans eftir að landið hlaut sjálfstæði.

Kassym-Jomart Tokajev, sem var hans hægri hönd og forseti öldungadeildar þingsins, verður forseti til bráðabirgða fram á næsta ár, en í apríl að ári verða forsetakosningar í Kasakstan. Það var hann sem lagði það til að nafni höfuðborgarinnar yrði breytt.

Tilkynnt var svo í morgun að Dariga, dóttir Nazarbajevs, hefði verið kosin forseti öldungadeildar þingsins og þykir mörgum það benda til að hún stefni á að verða forseti að ári.

Fréttastofan AFP segir að þótt Nazarbajev hafi dregið sig í hlé verði hann áhrifamikill enn um sinn enda beri hann titilinn Leiðtogi þjóðarinnar og sé skipaður formaður öryggisráðs landsins til æviloka.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV