Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ástæðulaust að draga þingrofskröfu til baka

05.04.2016 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, telur að minnihlutinn þurfi að skoða hvað sé réttast að gera í stöðunni. „Ég held að það sé engin ástæða til að draga til baka kröfuna um þingrof.“ Formaður Sjálfstæðisflokksins eigi eftir að gera grein fyrir afstöðu sinni til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og þess að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við sem forsætisráðherra. Birgitta segist ekki telja þetta ásættanlega niðurstöðu.

„Það er ljóst að þingflokkur hans hefur beðið hann [innsk: Sigmund Davíð] um, eða krafist þess að hann myndi segja af sér þessu embætti. Stóra spurningin er: Er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ennþá þingmaður? Er búið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um þessa umpólun á forsætisráðuneytinu, sem er verkstjórnartæki hverrar ríkisstjórnar fyrir sig. Ég held að ýmislegt eigi eftir að koma fram í dag og á morgun.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV