Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ásmundur skammar bæði ráðherra og þingmenn

26.09.2016 - 19:36
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að yfirlýsingar einstakra ráðherra og þingmanna undanfarna daga hafa verið ansi brattar, djarfar og drjúgar. Hann hvetur forystumenn til að láta yfir slíkum gífuryrðum og leyfa flokksmönnum að tala á flokksþinginu. Hann segir enn fremur að lýsingar þingmanna af þingflokksfundum flokksins hafa verið full ítarlegar.

Nokkrir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hafa tjáð sig á mjög opinskáan hátt um fyrirhugaðar formannskosningar í flokknum á sunnudag. Ásmundur Einar var augljóslega ekki sáttur með þær yfirlýsingar þegar rætt var við hann í sjónvarpsfréttum í kvöld. 

Ásmundur segir að það sé nú flokksmanna að skera úr um ákveðna þætti varðandi forystumál flokksins. Breiða samstöðu þurfi um hana. Hann segir að bæði Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð hafi staðið sig vel í sínum störfum sem forsætisráðherra og formaður en vildi ekki lýsa yfir beinum stuðningi við annan þeirra.  Nú væri það flokksmanna að tala.

Hann sagði yfirlýsingar ráðherra og þingmanna flokksins undanfarna daga hafa verið ansi brattar, djarfar og drjúgar og hvatti þá til að láta af slíkum gífuryrðum. Og leyfa flokksmönnum heldur að taka sína ákvörðun.