Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áslaugu Thelmu sagt upp vegna frammistöðuvanda

20.11.2018 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Lögmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns hjá Orku náttúrunnar, segir að uppsögn hennar hafi verið ólögmæt og því varla réttmæt. Áslaug Thelma sé því að lögum enn starfsmaður ON en í einhvers konar leyfi. Í kafla, sem hingað til hefur ekki verið birtur, úr skýrslu Innri endurskoðunar kemur fram að Áslaugu Thelmu var sagt upp vegna frammistöðuvanda. Vísað er til þessa kafla í bréfi starfandi forstjóra Orkuveitunnar til lögmanns Áslaugar Thelmu.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Áslaugar Thelmu, telur að skýrsla Innri endurskoðunar staðfesti að ekki hafi verið brugðist við kvörtun hennar um óviðeigandi hegðun Bjarna Más Júlíussonar, yfirmanns hennar. Úttekt hafi ekki farið fram í kjölfar kvörtunar hennar, þar sem fagleg afstaða var tekin til efnis kvörtunarinnar. Þetta segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Áslaugar Thelmu, í tölvupósti til Helgu Jónsdóttur, starfandi forstjóra OR, sem Sigurður sendi í morgun.

„Þá kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar  að umbjóðandi minn, starfsmannastjórinn og tengiliður starfsmannamála hjá ON hafi verið sammála um að yfirmaðurinn hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun sem var í óþökk og misbauð umbjóðanda mínum. Yfirmanninum var sagt upp eftir að hann sagði umbjóðanda mínum upp.  Í ljósi þessa er það niðurstaða eða mat innri endurskoðunar að ákvæði 27. gr. jafnréttislaga eigi við. Ákvæði þetta bannar uppsögn starfsmanns sem krafist hefur leiðréttingar á grundvelli atvika sem tiltekin eru í jafnréttislögum,“ segir í tölvupóstinum frá Sigurði.   

Því næst rekur Sigurður G. lagaákvæðið þar sem segir eftirfarandi

27. gr. Bann við uppsögn o.fl. vegna kæru eða leiðréttingarkröfu. 
Atvinnurekanda er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum sökum þess að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laga þessara. 
Atvinnurekandi skal jafnframt gæta þess að starfsmaður verði ekki beittur óréttlæti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært eða veitt upplýsingar um kynbundna eða kynferðislega áreitni eða kynjamismunun. 
Ef leiddar eru líkur að því að gengið hafi verið gegn ákvæði þessu skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn eða ætlað óréttlæti grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu starfsmanns, kæru eða veitingu upplýsinga um kynbundna eða kynferðislega áreitni eða aðra kynjamismunun. Þetta gildir ekki ef uppsögnin á sér stað meira en einu ári eftir að starfsmaðurinn setti fram leiðréttingarkröfur á grundvelli laga þessara. 

Í svari sínu bendir Helga Jónsdóttir Sigurði á að fjallað sé um 27. grein jafnréttislaga í skýrslu innri endurskoðunar, en í kafla í skýrslunni, þar sem fjallað er um uppsögn Ásluagar Thelmu segir: Á þeim grundvelli er það niðurstaða innri endurskoðunar að uppsögn vegna frammistöðuvanda hafi verið réttmæt en rétt hefði verið að tilgreina ástæður uppsagnar skriflega í uppsagnarbréfi með vísan til þess að ákvæði 27. gr. Jafnréttislaga átti við um uppsögnina. Það var ekki gert en farið var yfir þær munnlega í viðtalinu eins og kemur fram hér að framan. Þá óskaði forstöðumaður Einstaklingsmarkaðar ON ekki eftir skriflegum ástæðum uppsagnar sem honum var heimilt að gera samkvæmt kjarasamningi.“